Júlíus Jónsson fæddist í Norðurhjáleigu í Álftaveri 26. febrúar 1920. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum laugardaginn 25. júlí sl. Foreldrar hans voru Þórunn Pálsdóttir húsmóðir í Norðurhjáleigu, f. 5.9. 1896, d. 27.10. 1989 og Jón Gíslason bóndi og hreppsstjóri, f. 11.1. 1896, d. 2.4. 1975. Systkini Júlíusar eru: Þórhildur (látin) , Gísli, Pálína, Böðvar, Sigurður, Guðlaug (látin) , Guðlaugur, Jón, Fanney, Sigrún, Sigþór og Jónas. Eiginkona 24.1. 1953 er, Arndís Salvarsdóttir húsmóðir og ljósmóðir, f. á Bjarnastöðum í Reykjarfjarðarhreppi 14.5. 1929. Foreldrar hennar Ragnheiður Hákonardóttir húsmóðir og handavinnukennari, f. 16.8. 1901, d. 19.5. 1977 og Salvar Ólafsson bóndi, f. 4.7. 1888, d. 3.9. 1979. Börn Júlíusar og Arndísar eru: 1) Salvar, f. 29.12. 1952, börn hans a) Elísabet Hrund, maki Smári Hrólfsson og b) Gunnar Símon. 2) Jón, f. 30.8. 1954, maki Helga Gunnarsdóttir, börn þeirra: a) Júlíus Ingi, maki Ragnhildur Ágústsdóttir, synir þeirra Jón Ágúst og Viktor Ingi. b) Gunnar Örn. c) Arndís Eva. 3) Gísli Þórörn, f. 13.1. 1956, maki Rakel Þórisdóttir, börn þeirra Vala Rún, Jón Símon og Tumi Snær. 4) Ragnheiður Guðrún, f. 13.12. 1957, maki Kári Gunnarsson, börn þeirra: a) Júlíus Arnar Birgisson, sambýliskona Hildur Björk Pálsdóttir, synir þeirra Arnar Ingi og Alexander Orri. b) Helga. c) Sæunn. d) Valgerður. e) Elín Erla. f) Bergsteinn. 5) Ólafur Elvar, f. 14.11. 1958 börn hans og, fv. sambýliskonu Önnu Þ. Skúladóttur eru Birkir, Berglind og Harpa. Sambýliskona Ingibjörg Einarsdóttir, dætur hennar Lóa Dagmar og Freyja Smáradætur. 6) Jóhanna Sólveig, f. 1.5. 1961, börn hennar og, fv. sambýlismanns Ólafs Þóris Hansen, eru Hafsteinn, Atli (látinn) og Aníta Rún. Sambýlismaður Birgir Arnar Steingrímsson. 7) Þórunn, f. 1.7. 1962, d. 18.10. 1964. 8) Símon Þórir, f. 12.4. 1966, d. 17.5. 1986. Júlíus var næstelstur 13 systkina. Hann upplifði tímana tvenna, m.a byggingu Alviðruhamravita 1929 og varð síðar vitavörður ásamt Böðvari. Skólaganga hans: farskóli í Álftaveri, Bændaskólinn á Hvanneyri haustið 1941, en varð að hverfa frá námi vegna alvarlegra veikinda. Störf: hjá Landsíma Íslands 1944 sem línumaður, síðar sem verkstjóri til ársins 1956, þá bóndi í Norðurhjáleigu ásamt eiginkonu sinni Arndísi, foreldrum og seinna meir Böðvari bróður sínum. Fjárrækt var honum hugleikin alla tíð enda fjárglöggur maður. Hann var oddviti Álftavershrepps og hreppsstjóri, sýslunefndarmaður, búnaðarþingsfulltrúi, stéttarsambandi bænda, endurskoðandi hjá Bændahöllinni, Búnaðarmálasjóði og K.S. Júlíus sat í sauðfjársjúkdómanefnd og ritnefnd Sunnlenskra byggða. Júlíus sá um veðurþjónustu í Norðurhjáleigu ásamt Arndísi konu sinni frá því í janúar 1986 til marsloka 2007. Júlíus var framsýnn í búskapnum, hóf kornrækt í Álftaveri, útsjónarsamur, var hugmikill til verka, átti góða að, dugmikla eiginkona og fullt hús af börnum. Júlíus var fyrst og síðast bóndi. Útför Júlíusar fer fram frá Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri, í dag, 7. ágúst og hefst athöfnin klukkan 15.

Mér er ljúft og skylt að skrifa nokkur minningar- og kveðjuorð við andlát vinar míns Júlíusar Jónssonar bónda í Norðurhjáleigu.
Júlíus ólst upp í Norðurhjáleigu í stórum systkinahópi og var með þeim eldri í þeim hópnum. Starfsævi Júlíusar var á seinni hluta síðustu aldar sem var mesta framfara og blómaskeið íslenskrar menningarsögu. Júlíus var um langt skeið í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands og lágu leiðir okkar þá mjög saman því ég var ráðunautur hjá Sambandinu á þeim tíma. Vorum við starfsmenn, sem ekki voru á þeim tíma mjög margir, á stjórnarfundum og ferðuðumst við saman til fundanna sem jafnan voru á Selfossi. Við Júlíus vorum um langt árabil fulltrúar á aðalfundi Stéttarsambands bænda fyrir Vestur-Skaftafellssýslu. Var samstarf okkar þar einnig mjög gott og margs að minnast frá þeim árum.
Við Júlíus vorum alla stund samherjar í stjórnmálum. Hann var einlægur samvinnumaður og studdi Framsóknarflokkinn til áhrifa í þjóðmálum. Við vorum lengi saman í stjórn Framsóknarfélags Vestur-Skaftafellssýslu og gerðum það ásamt fleirum að mjög öflugu félagi. Þá lágu leiðir okkar saman í stjórn Kaupfélags Skaftfellinga og umfjöllun um málefni þess. Við reyndum eftir bestu getu og lögðum okkur alla fram um að vinna það út úr erfileikunum en biðum lægri hlut eins og stjórnir marga Kaupfélaga.
Þetta eru stærstu viðfangsefni sem við Júlíus unnum saman að. Fyrir öll okkar sameiginlegu félagsmálastörf þakka ég af alhug og minnist alltaf hins góða og glaðsinna félaga, hins góða og réttsýna framlags hans, einlægni og dugnaðar alls staðar þar sem hann var tilkvaddur. Júlíus vann að mörgum fleiri félagsmálum sem ég nefni ekki hér, en þessi eru næst huga mínum á þessari stundu.
Júlíus giftist Arndísi Salvarsdóttur frá Reykjarfirði í Ísafjarðarsýslu. Þau Júlíus og Arndís eignuðust mannvænlegan barnahóp sem menntaðist vel og fann sér störf í þjóðfélaginu eftir áhugamálum sínum. Þau hjón urðu fyrir þeirri miklu sorg og lífsreynslu að missa tvö af börnum sínum af slysförum á unga aldri. Það var mikill harmur sem á þau var lagður en þau sigruðu með miklum hetjuskap. Það má því segja að Júlíus hafi fengið að reyna að lífið er ekki tómur dans á rósum. Júlíus og Arndís hófu búskap í Norðurhjáleigu í félagi við foreldra Júlíusar og þegar foreldrar hans minnkuðu hlutdeild í búinu kom Böðvar bróðir Júlíusar inn í félagsbúið. Var bú þeirra bræðra með best reknu búum á Suðurlandi þar sem ræktun búfjár og jarðar var stunduð af hinni mestu alúð. Þau hjón reistu sér glæsilegt íbúðarhús og saman byggðu þeir bræður glæsileg útihús á jörðinni, juku mikið við ræktun og byrjuðu kornrækt. Vestur-Skaftfellingar kveðja í dag mikilhæfan forystumann og bónda sem setti svip á líf og starf í samtíð sinni. Það var hamingja að kynnast Júlíusi, þar fer góður Íslendingur sem unni landi og þjóð. Ég þakka samstarf og vináttu þessa góða drengs. Við Eyrún sendum Arndísi, börnunum og fjölskyldunni allri frá Norðurhjáleigu okkar samúðarkveðjur.

Einar Þorsteinsson.