Guðrún Ólafsdóttir fæddist 11.12. 1919 á Ytra-Álandi í Þistilfirði. Hún lést á Landspítalanum 2.3. 2012. Foreldrar hennar: Ólafur Hjartarson, f. 2.9. 1894, d. 1.9. 1923, og Hólmfríður Stefánsdóttir, f. 13.3. 1896, d. 25.6. 1929. Guðrún átti eina systur, Ólöfu, f. 20.7. 1923, d. 25.6. 1991. Guðrún giftist 20.6. 1942 Sigurði Jónssyni frá Fagranesi á Langanesi, f. 29.10. 1911, d. 15.5. 1987. Þau eignuðust fimm dætur: 1) Sigríður, leikskólastjóri, f. 2.4. 1944, m.: Skjöldur Vatnar Björnsson – skilin. Sonur: Rúrik Vatnarsson, f. 24.10. 1965, m.: Harpa Helgadóttir. Börn: Andri Vatnar, Sigurberg, unnusta hans er Elísa, Lilja og Dagbjört. 2) Þóra Guðrún hjúkrunarfræðingur, f. 18.5 1948, m.: Gunnar Haukur Jóhannesson verkfræðingur. Börn: a) Guðrún Dröfn, f. 27.10. 1971, m.: Sigurjón Ólafsson. Börn: Þórdís Ólöf, Signý Kristín og Ólafur Þorri. b) Jóhanna Sif, f. 28.12. 1972, m.: Einar Pálmi Sigmundsson. Börn: Snæfríður Birta, Sindri Heiðar og Sólveig Embla. c) Rúnar Haukur, f. 2.2. 1975, m.: Helga Björnsdóttir. Börn: Arnar Haukur og María Katrín. 3) Jónína Stefanía leikskólakennari, f. 17.1. 1955, m.: Rúnar F. Sigurðsson yfirbókari. Börn: a) Sigurður, f. 3.8. 1980, m.: Auður Hannesdóttir. Dætur: Freydís María og Berglind Emelía. b) Una, f. 1.10. 1983, m.: Tryggvi Jónasson. Sonur: Elvar Jökull. 4) Ólöf Unnur, félagsráðgjafi, f. 18.11. 1957, m.: Bernhard Svavarsson hjúkrunarfræðingur. Synir: a) Tómas Karl, f. 18.12. 1987, b) Friðrik Elí, f. 22.11. 1989. Unnusta: Ásdís Sigurðardóttir. 5) Anna Björk þjóðfélagsfræðingur, f. 6.7. 1962, m.: Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Sonur: Stefán, f. 10.4. 1990. Unnusta: Irina Zhilina. Guðrún bjó ásamt foreldrum sínum á Ytra-Álandi í Þistilfirði til 1922 en þá fluttu þau til Reykjavíkur. Foreldrar hennar létust langt um aldur fram vegna berkla sem var verulegt heilsufarsvandamál á fyrri hluta tuttugustu aldar. Faðir hennar lést í Reykjavík 1923. Móðir hennar ásamt dætrunum tveimur bjó í Reykjavík þar sem Guðrún átti margar bernskuminningar frá Skólavörðustígnum. Síðan fluttu þær aftur norður í Ytra-Áland þar sem móðir hennar hélt áfram búskap meðan heilsan leyfði. Eftir fráfall Hólmfríðar árið 1929 ólust Guðrún og Ólöf upp hjá móðurömmu sinni í Laxárdal í Þistilfirði, Guðrúnu Guðmundu Þorláksdóttur og seinni manni hennar, Ólafi Þórarinssyni. Guðrún lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík árið 1938. Hún sótti námskeið m.a. í orgelleik og þýsku og starfaði með Tónlistarfélagskórnum. Guðrún og Sigurður bjuggu á Efra-Lóni á Langanesi frá 1943 til 1983. Meðfram búskap sinntu þau margvíslegum félagsstörfum í þágu sveitarfélagsins. Guðrún var meðal annars organisti og kórstjóri við Sauðaneskirkju í mörg ár. Þau fluttu til Reykjavíkur árið 1983 og bjuggu á Lokastíg 4 þar til Sigurður lést árið 1987. Skömmu síðar fluttist Guðrún í íbúð sína í Skálagerði 7 þar sem hún bjó við góða heilsu fram á síðasta aldursár. Útför Guðrúnar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 15. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag 15. mars er borinn til hinstu hvílu Guðrún Ólafsdóttir móðursystir mín sem fæddist 1919 á Ytra-Álandi í Þistilfirði Langanesi og andaðist 2. mars 2012. Guðrún og Sigurður Jónsson eiginmaður hennar stofnuðu nýbýlið Efra-Lón Langanesi árið 1943 í heimstyrjöldinni miðri og eignuðust þau fimm dætur.

Ég var fimm ára þegar ég kom fyrst í Efra-Lón og eftir það var ég mörg sumur á Lóni. Oftast kom ég eitthvað í Efra-Lón á hverju ári svo lengi sem Gulla og Sigurður bjuggu þar. Ég tengdist fólkinu á Lóni strax sérstökum böndum og þrátt fyrir landfræðilegan aðskilnað, ég í Reykjavík og þau fyrir norðan fannst mér ég alltaf vera hluti af lífinu þarna fyrir norðan. Skólinn var vart búinn á vorin þegar ég var farinn norður og oft var skóli vel byrjaður þegar ég fór heim að hausti. Það var sérstök tilfinning þegar flugvélin lenti á flugvellinum við Sauðanes að hitta frænkur mínar og Sigurð og aka í jeppanum heim í Lón. Þegar ég kom norður á vorin var sauðburður um það bil að hefjast, tími mikils annríkis og stórviðburða sem áttu sér stað í náttúrunni á hverjum degi.

Gulla og Sigurður voru lagin í sínum búskap, en það verða menn að vera ef þeir ætla að komast af norður við íshaf, glögg og næm á líðan síns búsmala og misstu lítið sökum sjúkdóma og þess háttar. Gulla frænka var ætíð kölluð til að hjálpa kindum sem áttu í erfiðleikum með burð.

Litli frændinn" var víst í fyrsta sinn að sjá lamb fæðast og spyr Hvernig kemst lambið inn í kindina?" Ekki fer sögum af svarinu en myndin er sterk þar sem lambið er dregið út í heiminn og hvernig mædd móður er fengin til að sættast við afkvæmið.

Seinni árin á Efra-Lóni fórum við Gulla stundum í ferðir út í haga að skoða og safna  plöntum, en hún þekkti nöfn þeirra allra.

Á Efra-Lóni voru og ætíð margir reiðhestar, miklir smalasnillingar og settu þeir mikinn svip á tilveru okkar krakkanna. Ekki var óalgengt að farið væri á kvöldin í reiðtúr að loknum vinnudegi og við sauðburð á vorin og í smalamennsku á haustin voru hestar notaðir. Mörg árin var verið ríðandi við fjárgæslu allan maímánuð og í smalamennsku allan september og fram í október.

Á jólum kom alltaf kassi með jólapökkum til okkar í Grundargerði, í þessum kassa voru líka sendibréf. Þetta var raunar annáll ársins þar sem greint var frá búskaparháttum en þessum árum verður tæknibylting í  íslenskum landbúnaði, þessi umbylting kom þó ekki fram að fullu fyrr en hrammi viðreisnar var aflétt. Árin þar á eftir voru mikil umbyltingartími og varð búið á Efra-Lóni á þeim árum eitt hið stærsta í landinu með rúmlega eitt þúsund fjár á fjalli. Efra-Lón var ætíð miðstöð félagsmála sveitarinnar. Byggðastefna, að halda landinu í byggð og skila því betra til næstu kynslóðar einkenndu öll störf þeirra hjóna. Guðrún spilaði á orgel og var organisti og kórstjóri við Sauðaneskirkju í mörg ár. Orgelspil og söngur á Lóni lifir sterkt í minningunni.

Miklir umbrotatímar voru rétt afstaðnir þegar Guðrún móðursystir mín fæddist.  Fyrri heimstyrjöldinni er lokið fyrir rúmu ári. Veturinn árið áður, 1918 oft nefnt frostaveturinn mikli. Gífurlegur hafís lagðist að landi fyrir norðurlandi, vestfjörðum og austfjörðum, skip komust ekki um Reykjavíkurhöfn vegna ísa, Faxaflóa lagði. Ísbirnir gengu á land víða um land, einn var drepin á Langanesi.  Í janúar er 20 stiga frost í Reykjavík, Faxaflói fraus, 28 stiga frost á Ísafirði, 33,5 stiga frost á Akureyri, 36 stiga frost á Grímsstöðum. Kötlugos var nýafstaðið, öskufall um allt land, beit spilltist. Ofan á þetta geisaði versta farsótt síðari tíma, spánska veikin en úr henni létust nokkur hundruð manna. Smá saman fara landsmenn að rétta við eftir mjög erfiða tíma. Á sama tíma gerast aðrir atburðir ánægjulegri. 1. desember verður Ísland fullvalda ríki. Fyrri heimstyrjöldinni lauk með uppgjöf Þjóðverja og sigri Bandamanna.

Yngra fólk á eðlilega erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig lífsaðstæður Íslendinga voru fyrir þó ekki lengra aftur í tímann en hér um ræðir, rúmlega  90 ár. Á Langanesi voru aktygi og hestvagnarnir enn í notkun. Á flestum bæjum var ekki rafmagn. Síðan verður umbylting atvinnuhátta.

Og ekki hafa jafn miklar breytingar á jafn skömmum tíma orðið áður í sögu þjóðarinnar og á þessu tímabili.

Kaflar úr sendibréfum

Nú fer Þóra í skólann á mánudaginn kemur. Aðalbjörg á Grund verður barnakennari hér í vetur. Óli var búinn að sækja um kennarastöðuna hér í vetur en hætti við þegar hann vissi að ekki á að hafa skóla hér nema í þrjá mánuði, einn mánuð fyrir jól og tvo einhverntíma eftir hátíðar, líklega febrúar og mars. (nóv. 1960)

Fríða Sigga er tvisvar búin að skrifa.... En ekki hældi hún matnum, segir að slátrið sé mörlaust og bragðlaust kaffibrauðið óbakað og ekki nokkur leið að stinga gaffli í kartöflurnar.  Byrjað að smala heimahagana, sem ná reyndar upp um öll fjöll... Fyrst var Hvannstaðalandið og ásinn innan við Grund smalað. Það var þokusúld um morguninn, en svo létti til og gerði besta veður ... seinni part dagsins var smalað ofan við Stíflá. Næsta dag vestan við, þá var þoka seinni partinn. Síðan niður við sjó. Og má svo heita að eitthvað hafi verið átt við kindur alla daga síðan. Það ætlaði ekki að ganga vel að koma fénu yfir brúna hérna fyrir ofan .... það voru margar aðkomukindur, sem ekki vildu ganga á brúna og varð að síðustu að þvæla þeim einni og einni í ána til að koma þeim yfir. Svo hefur þurft að reka rekstra í allar áttir..., veðrið oftast gott eða sæmilegt þá daga sem hefur verið smalað nema núna síðast..., þá voru rigningar og stundum krappahríð. Nú er ég búinn að elda það slátur sem ég ætla að elda í haust. Ég var að sjóða það síðasta í gær. (1961)

Það er komin talsverður snjór hér, enda voru hörkustórhríðar í meira en tvo sólarhringa rétt eftir veturnæturnar. Sigurður var svo heppinn að vera búinn að ná öllu sínu fé heim rétt áður en fór að hríða fyrir alvöru.( nóv. 1962)

Ætla mér að senda þér svolítinn poka með sælgæti. Það er af því sem Ameríkanarnir gáfu okkur. Þeir fóru heim á alla bæi og færðu krökkunum sælgætispoka en það var ekki fyrr en nokkru eftir jól.... Nú eru þau Stefanía og Jón flutt austur á Hornafjörð. Þau fóru í janúar. Svo nú er enginn á Ytra-Lóns bænum. Laufey er hér hjá okkur. Þau á Hóli fara víst í vor og sennilega fer Jaðar líka í eyði í vor.(feb. 1963)

Á Efra-Lóni var farskóli um hríð Guðrún frænka kenndi, nemendur þar sögðu það heldur skemmtilegan og árangursríkan skóla.

Minningabrot

Elsku frænka örfá sundurlaus minningabrot:

búskapurinn með Sigurði

verkin með dætrum þínum

orgelspil og söngur á Lóni

þú að þvo þvott sem soðinn var í stórum potti sem kynntur var með rekavið og síðan borinn út að á, þar sem hann var skolaður

að sjóða slátur í þessum sama potti að hausti, síðan var slátrið sett í tunnu svo stóra að ekki sá ofan í hana, fulla af mysu

að snyrta fax og tagl hestana þar sem þeir standa í hlaði

að kveikja upp í kolaeldavélinni ef eldur hafði kulnað yfir nóttina

að koma lífi í lambið sem þú hjálpaðir í heiminn

að töfra fram veisluborð

hryggðinni þegar bæirnir í kring fóru í eyði hver af öðrum

ferðirnar niður að sjó

blómasöfnunarferðunum með þér

útreiðatúrunum

símasamtölin í gegnum árin

og síðan öllu því ósagða.

Ólafur Hjörtur Sigurjónsson