Björn T. Gunnlaugsson var fæddur. 25. sept. 1926 að Bakka í Víðidal, hann lést á Droplaugarstöðum 16. des. Foreldrar hans voru Gunnlaugur A. Jóhannesson f. 16.nóv. 1894 d. 1.jan. 1970 og Anna Teitsdóttir f. 1.des. 1895 d. 10.júlí 1978. Systkini Björns eru: Ingibjörg f. 7.jún. 1922 látin, Jóhanna f. 22. feb. 1924, Teitur f. 20.maí látinn, Jóhannes f. 9.ágúst 1929, Elísabet f. 13.júlí 1932, Aðalheiður f. 30.okt. 1934, Egill f. 29.sept. 1936 látinn, Ragnar f. 17.mars 1941. Þann 17.mars 1953 giftist Björn Helgu Ágústdóttur f.17.mars 1934. Foreldrar hennar voru Ásdís Eiríksdóttir og Ágúst Erlendsson. Börn Björns og Helgu eru: 1) Sigurbjörg f. 28.júlí 1953 d. 4.jan. 1992 maki Haraldur Magnússon f. 17.feb. 1953, þeirra börn eru: a) Unnur Ósk f.15.okt. maki Bragi Hreinn Þorsteinsson, börn: Sigurbjörg Sara og Eyrún Birna b) Helga Björk í sambúð með Björnar Ness, barn: Bendik c) Magnús Már í sambúð með Aþenu Mjöll Pétursdóttur, börn: Elías Breki og Sigurbjörg Embla. 2) Anna Ásdís f. 17.mars 1957 maki Kolbeinn Gunnarsson f. 19.okt. 1956, þeirra börn eru: a) Heiðar Ingi b) Svanfríður Helga, börn: Emelíana Tea, Birgitta Mary og Auður Birta c) Gunnar Björn í sambúð með Sigurbjörgu Ernu Halldórsdóttur 3) Sigurveig f. 8.feb. 1960 maki Árni S. Eggertsson f. 19.mars 1956, synir þeirra eru: a) Björn í sambúð með Hrefnu Rósu Sætran, barn: Bertram Skuggi b) Eggert Jóhann í sambúð með Söndru Björgu Sigurjónsdóttur, barn: Lára Björk 4) Gunnlaugur Auðunn f. 22.des. 1961 í sambúð með Jóhönnu Sveinsdóttur f. 3.sept. 1967, börn hans eru a) Sólveig Helga b) Björn Ari. Björn ólst upp í foreldrahúsum til 17.ára aldurs, flutti þá til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka. Björn var í Handíðarskólanum veturinn 1945-46, lauk námi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1950. Hann starfaði við iðnina hjá öðrum til 1954, en byrjaði þá eigin rekstur við að smíða og selja húsgögn til ársins 1982. Þá stofnsetti hann innrömmunina „Ramminn“ og starfaði þar ásamt konu sinni allt til ársins 2005. Björn dvaldi á Droplaugarstöðum sl. 9.mánuði. Björn verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju 3. jan. kl. 13.

Elskulegur pabbi minn og tengdapabbi Björn T. Gunnlaugsson lést á sunnudaginn 16. desember. Við í sameiningu áttum  alla tíð góðan tíma með honum pabba mínum. Hann átti mjög fallegt heimili, fyrst að Hverfisgötu (Norðurpólnum) þar sem hann rak verslun, verkstæði og síðast innrömmun sem hét Ramminn, síðan fluttu þau að Njálsgötu 112 og þaðan í Bólstaðahlíð 41 og var hann síðustu mánuðina að Droplaugarstöðum.

Pabbi minn var mikill listamaður, hann bæði málaði málverk og gerði flottar blýants teikningar, einnig skar hann út í timbur og svo margt fleira.

Alltaf man ég þegar ég var lítil og var á smíðaverkstæðinu hjá honum hvað mér fannst þetta mikið sport og elskaði spítulyktina og heillaðist af öllu sem fram fór þarna hjá honum.

Þau hjónin komu oft til okkar í Furuhlíðina , þá var alltaf glatt á hjalla. Pabbi hafði mjög góðan húmor  og sá ávalt spaug í öllu. Orðheppinn var hann ávallt og hugsaði mikið áður en hann talaði. Við áttum  margar góða stundir í góðu mataboði eða þegar grillað var hér hjá okkur.

Oft kom hann og mamma í heimsókn í Hreiðrið, sumarhús okkar hjóna og ýmislegt gert okkur til skemmtunar, farið í gönguferðir, gengið um landið eða verið í afslöppun þegar sólin skein . Börnin okkar höfðu alltaf gaman af því að hitta afa sinn og áttu ávallt góðar stundir með honum.

Hann var mikill áhugamaður um ferðir erlendis og fóru þau yfirleitt  tvær ferðir erlendis á hverju ári og nutu þess að vera í sólinni .

Hann hafði líka gaman af því að ferðast innanlands og farið víða um landið. Myndatökur voru ofarlega í hans huga og oftar en ekki var stoppað út í vegkanti meðan fjölskyldan beið í bílnum og hann hljóp upp á næsta hól til að taka landslagsmyndir, enda átti hann frábært safn af ljósmyndum. Síðan kom að því að hann fékk sér kvikmyndatökuvél og hafði hann yndi af því að taka myndir í ferðalögum, ekki síst af barnabörnum sínum sem eru orðin tíu, enda er þetta ómetanlegur fjársjóður að eiga þessar myndir nú í dag.

Sérstaklega hefur verið gaman að sjá hvað systkini hans hafa haldið vel saman, og eftir að þau fluttu til borgarinnar hafa þau komið sér öll fyrir á svo að segja á sama blettinum og því göngufæri til allra.

Pabbi / tengdapabbi, takk fyrir allan þann tíma sem við höfum átt saman í gegnum tíðina.

Anna Ásdís og Kolbeinn.