Haraldur Holti Líndal fæddist á Holtastöðum í Langadal, Engihlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu, 20. nóvember 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi 27. maí 2013. Foreldrar Holta voru Jónatan Jósafatsson Líndal, f. 26. júní 1879, d. 6. nóvember 1971, bóndi og hreppstjóri á Holtastöðum og áður kaupfélagsstjóri á Blönduósi, og seinni kona hans, Soffía Pétursdóttur Líndal, f. 9. nóvember 1901, d. 18. apríl 1990, hjúkrunarkona og húsfreyja á Holtastöðum. Systir Holta er Kristín Hjördís Líndal, f. 26. júní 1941; og hálfsystkini Holta, börn Jónatans með fyrri konu sinni, Guðríði Sigurðardóttir Líndal, f. 5. desember 1878, d. 11. júní 1932, húsfreyju á Holtastöðum og áður forstöðukonu Kvennaskólans á Blönduósi, voru Jósafat J. Líndal, f. 21. júní 1912, d. 6. september 2003 og Margrét J. Líndal, f. 2. september 1917, d. 3. mars 1991. Haraldur Holti kvæntist á sumardaginn fyrsta 1964 Kristínu Dóru Margréti Jónsdóttur, f. 19. september 1943, frá Skarfhóli í Miðfirði. Foreldrar hennar eru Jóhanna Björnsdóttir, f. 27. janúar 1919; og Jón Kristinn Pétursson, f. 20. apríl 1918, d. 25. ágúst 1978. Synir Holta og Kristínar eru: 1) Jón Pétur, f. 6. mars 1964, sambýliskona Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 1. júní 1963. Fyrri sambýliskona Sólveig Valgerður Stefánsdóttir, f. 3. júní 1965, og börn þeirra: a) Soffía Kristín, f. 21. ágúst 1989, b) Sólveig Jóhanna, f. 21. ágúst 1989, c) Kolbrún Védís, f. 11. september 2000, barn Sólveigar frá fyrra sambandi, Jóna Björk Indriðadóttir, f. 21. júní 1983; 2) Jónatan Elfar, f. 13. maí 1965; 3) Júlíus Bjarki, f. 24. nóvember 1968, sambýliskona Aðalheiður Lilja Magnúsdóttir, f. 17. júlí 1969, börn þeirra eru: a) Haraldur Holti, f. 4. september 2003, b) Vilborg Jóhanna, f. 27. janúar 2005, c) Friðbjörg Margrét, f. 9. apríl 2007, börn Aðalheiðar frá fyrra sambandi Magnús Ívar Hannesson, f. 4. september 1987 og Jón Hannesson, f. 17. júní 1992; 4) Jóhann Haukur Kristinn, f. 21. júní 1978, maki Birna Aldís Fernández, f. 21. apríl 1981, börn þeirra eru: a) Júlía Karen Fernández, f. 23. janúar 2009, b) Davíð Ari Fernández, f. 28. nóvember 2010. Holti ólst upp og vann á búi foreldra sinna þar til hann keypti jörð og bú 1964, hann helgaði Holtastöðum allt sitt ævistarf. Holti stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri 1957-1958. Holti tók virkan þátt í ungmennafélagsstarfi USAH á yngri árum. Holti var virkur þátttakandi í skógræktarstarfi A-Hún. og var hann um árabil í stjórn Skógræktarfélags A-Hún. Einnig var Holti í Áfengisvarnarnefnd A-Hún. til margra ára. Auk þess tók hann við af föður sínum sem meðhjálpari við Holtastaðakirkju og var meðhjálpari fram til þessa dags. Útför Holta fer fram frá Holtastaðakirkju í dag, 1. júní 2013, og hefst athöfnin klukkan 14.

Í júní árið 1939 flytur Sveinn frá Elivogum afa mínum kvæði á 60 ára afmæli hans, þar er m.a. þetta erindi:

Hirðing öll á bæ og búi

bóndans orðstír vítt má flytja,

rekið burtu ryð og fúi,

rótfest margt til skrauts og nytja.

Stækkað tún og steyptar hlöður;

stór hugans er merkjalína.

Fjárstofnseldi og fyrndar töður

fyrirhyggju og manndóm sýna.

Sé það rétt að börn geti heyrt og skynjað eitthvað í móðurkviði hefur þetta líklega verið fyrsta kvæðið sem faðir minn, Haraldur Holti Líndal, heyrði. Vel má ætla að svo sé, svo vel eiga þessar línur við búskaparlag hans á Holtastöðum.

Hann var fæddur á Holtastöðum 20. nóvember 1939, ólst síðan þar upp á fjölmennu heimili við bústörf þar til hann fór í bændaskóla á Hvanneyri og tók síðan við búskap á Holtastöðum eftir að kaupa jörðina af föður sínum 1964. Holti tók sér nánast aldrei frí frá bústörfum alla sína ævi nema vegna veikinda og til að kynnast móður minni sem hann síðan giftist á sumardaginn fyrsta árið 1964. Líklega hefur árið 1964 verið fjölbreytilegasta ár hans á ævinni, árið sem hann kvænist og eignast fyrsta barnið af fjórum auk þess að kaupa jörðina og taka við rekstri búsins. Eftir þetta ár varð ekki aftur snúið af þeirri leið sem þá var farin og starfaði Holti til æviloka samviskusamlega og myndarlega að bústörfum og öðrum verkum sem segja má að örlögin hafi falið honum.

Á Holtastöðum byggði afi Holta, ásamt þáverandi meðeiganda sínum að Holtastöðum, kirkju sem vígð var við fermingu föður hans Jónatans J. Líndal árið 1893. Kirkjan var bændakirkja til ársins 1942 þegar hún var afhent söfnuðinum. Holti var um áratuga skeið meðhjálpari í kirkjunni og meðhjálpaði þar eftir því sem næst verður komist a.m.k. 12 fastráðnum prestum og próföstum auk afleysingafólks við prestsstörf. Þrátt fyrir að kirkjan væri í hans tíð í eigu og rekstri sóknarinnar gætti Holti kirkjunnar ekki síður en þó hún hefði verið hans prívat eign og ekki man ég eftir að hann hafi nokkurn tíma gert meðhjálparastarfið eða kirkjuvörsluna að féþúfu þó eflaust hefði getað verið eitthvað upp úr því að hafa. En það var ekki hans háttur að heimta peninga fyrir allt sem gert var, þannig var hann ekki og í þessu tilviki var það virðing fyrir forfeðrunum og að heiðra þá sem réði verkum hans ásamt því að létta undir með nágrönnum sínum í Holtastaðasókn.

Fyrir Holta Líndal voru Holtastaðir ekki venjuleg jörð, þar var nánast allt sem hann þurfti um dagana. Hann gat fæðst þar heima og með kirkju í túninu fékk hann skírn og fermingu þar líka. Jörðin er góð bújörð og gefur af sér allan þann matarforða sem þarf til að lifa af, mjólk og kjöt, kartöflur og grænmeti, ber, rabarbara og fjallagrös er þar að finna og smávegis silung og lax í ánni. Það hefur vissulega breyst hvernig þessi gæði eru nýtt í tímans rás en allt er þetta enn í seilingarfjarlægð. Það er fallegt yfir að líta á Holtastöðum jafnt á bæjarhlaðinu, niðri við á og uppi í fjalli. Holti hafði því góða næringu til sálar og líkama og undi sér best á sinni jörð. Oft voru langir vinnudagarnir og finnst mér það oft furðulegt hve hann harkaði af sér við þrældóm búskaparins þrátt fyrir lítinn afrakstur og lélegt tímakaup alla jafna. En þetta var það sem hann kunni og hafði tekið að sér að gera sem ungur maður og það hvarflaði aldrei að honum að gera nokkuð annað en að búa myndarlega á Holtastöðum.
Á jörðinni er einnig heimagrafreitur og kirkjugarður og þangað fer Holti nú þar sem hann verður jarðsettur við hlið móður sinnar. Hann hefur því ekki þurft margt annað en það sem fæst á Holtastöðum til að fæðast og lifa og þar verður hann áfram nú þegar hann er dáinn eins og foreldrar hans og fleiri forfeður.

Holti eyddi starfsævinni í að skaffa Íslendingum hráefni í fæði og klæði. Það þykir mörgum ekki merkileg iðja í dag og þarfara að leggja land undir sumarbústaði og hestasport og aðrar slíkar nauðsynjar. En hann hlýddi í upphafi ráðum föður síns um að nýta jörðina eingöngu til hefðbundins búskapar og komst sjálfur fljótt á sömu skoðun. Hann sá hve það er víða erfitt að blanda saman ólíkum hagsmunum búskaparins og þéttbýlisbúans sem vill m.a. gjarna vera laus við skepnur og skítalykt við bústaði sína.

Holti var þrjóskur og stóð á sínu. Honum var oft alveg sama hvaða skoðanir aðrir höfðu, það hafði engin áhrif á hann og hann hélt sínu striki. Í Langadal hafa nokkrir bændur brugðið búi á dögum Holta og tekið til við léttari störf. Auðvitað eru margar og misjafnar ástæður fyrir því að hætta búskap, en aldrei fann Holti slíka ástæðu.  Hann jók frekar jafnt og þétt við búskapinn. Um áratug eftir að hann tók við búinu var fjósið stækkað verulega og mjólkurframleiðslan aukin eftir því. Túnin voru stækkuð og síðar farið í kornrækt sem alla jafna gekk ljómandi vel. Ný hlaða var byggð og tækjakostur aukinn til að gera það mögulegt að skaffa þjóðinni mat á því verði sem skammtað var hverju sinni. Á nærri 50 ára búskapartíð hefur skv. lauslegum útreikningum Holti líklega skaffað landsmönnum 6-7 milljónir lítra af mjólk frá búi sínu ásamt yfir þúsund tonnum af kjöti og ull í mörg þúsund lopapeysur og teppi auk fleiri afurða. Þetta fannst honum þarft og gott ævistarf og var stoltur af búi sínu og störfum.

Holti var ekki veisluglaður maður en fór þó á skemmtanir af og til. Ef hann stóð sig virkilega illa í einhverju um dagana þá var það helst að honum tókst engan veginn að koma óorði á vín. En stundum hjálpaði hann heim þeim sem stóðu sig betur í því. Hann spilaði bridds á veturna og telfdi skák á yngri árum, hann tók þátt í ýmsum félagsstörfum sem tengjast búskapnum og því að vera jarðeigandi og lagði stundum lítil lóð á vogarskálarnar þegar stofnuð voru almenningshlutafélög um nýjan atvinnurekstur í héraðinu eins og bændur gjarna gera. Honum samdi jafnan vel við nágranna sína og sveitunga og talaði alltaf vel um þá heima fyrir þó auðvitað væru stundum einhverjir smáárekstrar á milli manna. Stundum óttaðist hann að sumir þeirra væru ekki nægilega forsjálir í fyrirætlunum sínum.  Ég held hann hafi alltaf reynt að hjálpa þeim sem eftir því leituðu og alltaf voru sveitungarnir líka boðnir og búnir að veita honum aðstoð ef þörf var á.

Afkomendur Holta eru ég og þrír bræður mínir.  Honum hefur eflaust þótt það betra að eignast syni til að hjálpa til við bústörfin. Allavega var okkur öllum kennt að vinna löngu áður en við vissum í raun að það sem við vorum að gera væri kallað vinna. Ég held að við allir höfum frá 6-7 ára aldri tekið þátt í bústörfum, í fyrstu létt verk og löðurmannleg eins og að reka kýrnar, seinna fórum við að moka flórinn sem nú er vinna sem valdamestu stjórnmálamenn landsins hafa dálæti á og smám saman voru okkur falin fleiri verk. Það var alveg sama hvað var gert á Holtastöðum þegar við vorum að alast upp, við vorum látnir taka þátt í öllu og lærðum fjölbreytt störf.  Uppvaxtarárin frá 6 ára aldri voru samfellt starfsnám í fjölbreyttum landbúnaðarstörfum, húsasmíðum, náttúruvernd, skógrækt, akstri, veðurfræði, öskugreiningu og mörgu fleiru.  Þó maður hafi farið í venjulegt skólanám og framhaldsskóla og lært margt á því þá er það starfsnám föður míns sem best hefur nýst um ævina.

Hann kenndi sér meins fyrir nokkrum árum og leitaði sér lækninga án þess að fá önnur svör í fyrstu en að hann væri að eldast. Eftir að hafa leitað til lækna nokkrum sinnum um tveggja ára skeið fékk hann loks að vita að krabbamein herjaði á hann. Jafnframt var honum fljótt tjáð að svo langur tími væri liðinn að mjög væri óvíst um árangur af læknismeðferð. Honum var sagt að hefði þetta uppgötvast 1-2 árum fyrr hefði mátt vænta góðs árangurs af aðgerð. Honum sárnaði það að læknavísindin á Íslandi væru svo skammt á veg komin að ekki fannst í honum meinið fyrr en það var um seinan. Gæðaeftirlitið í mjólkurstöðinni hefði aldrei gefið honum 2 ár til að bæta úr ef gallar fundust á gæðum mjólkurinnar frá Holtastöðum. Hann hélt að heilbrigðiskerfið ynni hraðar en það gerði í hans tilviki. Það hélt ég líka miðað við alla þá umræðu og áherslu sem lögð er á krabbameinsskoðanir og að leita sér lækninga þegar menn kenna sér meins. En þetta kom honum ekki að gagni. Hann ræddi þetta ekki mikið, enda hafði það ekki tilgang fyrir hann. Hann ákvað að eyða þeim tíma sem hann átti eftir á Holtastöðum svo lengi sem honum var fært ásamt því að nýta sér þá meðferð sem í boði var seint og um síðir. Hann stýrði því búi sínu allt þar til 13 dögum fyrir andlátið, þegar hann varð að leggjast inn á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi þar sem hann lést 27. maí sl.

Ég þakka föður mínum fyrir góð kynni og gott og heilbrigt uppeldi.

Jón P. Líndal.