Ólafur Þór Árnason fæddist á Þóreyjarnúpi í Línekrudal, Vestur-Húnavatnssýslu, 6. júlí 1939. Hann lést á heimili sínu 14. maí 2013. Ólafur var sonur hjónanna Láru Hólmfreðsdóttur húsfreyju og Árna Sigurjónssonar bónda. Systir Ólafs var Nína Björk Árnadóttir skáldkona en hún lést árið 2000 og bróðir Ólafs, sammæðra, Halldór Gísli Guðnason tamningamaður, búsettur í Danmörku. Óli bjó alla tíð á Þóreyjarnúp og rak um áratugaskeið stórbýli með fjölda hrossa og var með mikla sauðfjárrækt á Þóreyjarnúp. Honum leið ávallt best á sínum heimaslóðum. Hann var þekktur fyrir góðan orgel- og harmonikkuleik sinn. Útför Ólafs hefur farið fram í kyrrþey.

Vaknaðu elsku drengurinn minn sagði Óli frændi við mig þegar ég var 10 ára gamall, stoltur aðstoðarmaður hans í sveitinni á Þóreyjarnúp. Óli strauk á mér ennið og klappaði mér á kollinn og sagði mér að hlusta vel á það sem hann segði mér að gera og hlýða því en ég ætti ekki að óttast. Hann mundi gæta þess að okkur yrði ekki unninn skaði. Þessum orðum Óla trúði ég og Guð veit að ég ætlaði að hlýða því sem hann segði mér að gera.
Það eru komnir brjálaðir menn að hefna fyrir atvik sem tengist Dóra bróður sagði Óli.
Við vorum tveir þessa nótt í gamla húsinu á Þóreyjarnúp, amma Lára og Trausti Sigurjónsson, sambýlismaður ömmu voru ekki heima þessa nótt, og við höfðum farið snemma að sofa eftir mikla vinnu á engjunum í skínandi og ilmandi heyskap.
Ég sá að tveir amerískir bílar komu á miklum hraða keyrandi upp veginn að Þóreyjarnúp frá aðalveginum og staðnæmdust þessir kaggar á planinu fyrir framan húsið en þar inni hafði Óli vígbúist og ég átti ekki von á góðu, allavega ekki þá stundina. Þeir drápu ekki á bílunum en gáfu mikið í bensínið þegar þeir voru komnir að planinu fyrir framan húsið sem við Óli vorum í.
Óli frændi, þessi maður friðar alla tíð, hélt á hlöðnum riffli og var í skotstöðu við stofugluggann í gamla húsinu. Gardína var þó fyrir glugganum svo mögulega sáu þeir ekki riffilinn en svona eftir á þá vona ég nú að þeir hafi séð riffilinn. Óli miðaði á bílstjóra annars bílsins en ætlaði ekki að skjóta nema að þeir mundu reyna að komast inn í húsíð enda var það þekkt og vitað að þessir menn voru vopnaðir. Ég sat við á kolli litlum við hlið hans og Óli hafði strokið mér um ennið aðeins og sagði mér að kvíða engu.
Já þarna fékk ég nú aldeilis nóg að hugsa um og svo ansi mikið á stuttum tíma. Óli frændi ætlaði semsagt að skjóta mennina ef þeir færu útúr bílunum.
Já það hefur verið býsna mikið sem þeir hafa gert á hlut Dóra hugsaði ég. Óli stóð grafkyrr og enn í skotstöðu. Einbeittur. Skothylki nokkur voru tilbúin á borðinu sem ég sat við og ég vissi að Óli var fljótur að hlaða riffilinn milli skota. Ég hafði séð það þegar ég hafði fengið að skjóta að gamni hjá honum eitt sinn.
Hinir óvelkomnu gestir sem áttu sökótt við frændur mína spændu nú upp planið fyrir framan gamla húsið af miklum krafti og einnig öskruðu þeir ókvæðisorð úr bílum sínum sem við heyrðum inní hús.
Ryk þyrlaðist um allt planið og byrgði okkur og vonandi þeim líka sýn.
Þessar mínútur sem Óli var í einbeittri skotstöðu við gluggann og læti þessara manna fyrir utan sér í lagi þegar allt fylltist af ryki og öskrum þessara manna og við sáum ekki hvort þeir væru í bílunum um stund líða mér seint úr minni.
Ekki vera hræddur elsku drengurinn minn sagði Óli aftur og ég fann eins og alltaf með Ólaf, meira að segja þarna til fullkomins öryggis með honum.
Það voru liðnar um 20 mínútur frá því að þeir komu en Óli heyrði þá loks keyra burt og umsátrinu var lokið og sem betur fer á eins friðsamlegan hátt og aðstæður buðu uppá. Svo lögðumst við til hvílu enda stór dagur fram undan í heyskap og sælu.
Það var stórkostlegt að vera með Óla á Þóreyjarnúp. Hann elskaði dýrin, vélarnar, vini sína og alla menn og konur og öll vinna lék í hendi hans.
Saman byggðum við hús og lögðum girðingar, kláruðum marga heyskapa saman og sauðburði. Óla fannst gott um helgar að drekka vín og skemmta sér. Ég sem ungur drengur í sveitinni fór með Óla í kaupstaðinn að sækja vistir, Kaupfélagið, hún Hanna Stína kaupfélagsfrú hitti okkur oft þá og gantaðist við okkur og síðar hann Hrólfur Egilsson, sómamaður mikill, sem starfar enn í Kaupfélaginu og er maður Gunnu Kollu náfrænku Óla og mín, Verslun Sigurðar Pálmasonar blómstraði á þessum tíma, og auðvitað var komið við á Póstinum að sækja pakka með brjóstbirtu.
Svo drakk Óli en ég drakk auðvitað ekki neitt nema kannski eina kók og prins póló en ég man mest að þetta var bara gleði og þegar Óli var kominn aðeins í glas þá var mér og oft Jóni Gísla frænda mínum og nánum vini, því við vorum svo oft saman hjá Óla á þessum árum, þá lét Óli okkur standa við orgelið og hann spilaði allt kvöldið af sinni einstöku snilld og listfengi og við sungum með eins hátt og vel og við gátum.
Edda Lára frænka mín, dóttir Dóra Gísla var líka nokkur sumur í sveit á Þoreyjarnúp og urðum við góðir vinir og brölluðum margt saman.
Eddu Láru á ég það að þakka að hún dreif mig annað slagið í reiðtúra og við riðum meðal annars mikið um fjöllin ofan við Þóreyjarnúp en einnig niður á vegi og inn að Vesturhópsvatni.
Þetta fannst mér stórkostlegt og hann Óli var líka svo mikill listamaður í músík og texta. Saman fórum við síðar í tvær ferðir upp á Arnarvatnsheiði. Fyrri ferðin var með Dóra Gísla, Jóni Gísla, Óla og mér og fleirum og það var góð ferð og við veiddum í net um það bil 250 bleikjur og silunga, keyrðum á heiðina, meðal annars framhjá Eiríksjökli á Rússa jeppa Óla sem komst í gegnum allar þrautir en margir höfðu fest sig illa á þessari leið en gamli Rússinn hans Óla fór hægt yfir en hann komst yfir.
Seinni ferð okkar Óla en við fórum í hana bara við tveir saman var svolítið ævintýralegri. Við lögðum af stað á Rússa jeppanum með kerru aftaní. Við förum á heiðina sagði Óli en amma Lára var ekki hrifin af þessu og sagði Óla að fara ekki og alls ekki að taka mig þetta ungan með. En við fórum. Við komumst uppá heiði, veiðin var dræm og Bakkus hafði aðeins slæm áhrif þarna á Óla því ferðin reyndist okkur ansi erfið og þung. En við komumst heim og mikið var amma Lára glöð að sjá okkur og faðmaði okkur við heimkomu. Veiðin var engin í þetta skiptið nema nokkrir fuglar sem fóru í netin hjá okkur og tvisvar fórum við út af veginum á heimleið vegna þreytu en í bæði skiptin náði ég að vekja Óla, kippa í stýrið og hann komst upp á veg aftur.
Margir gestir, flestir góðir, komu á Þóreyjarnúp á þessum tíma. Ævintýri líkast var þegar Óli byggði einbýlishús sitt en þá lögðust allir á eitt og húsið var byggt á einu sumri og margir unnu við þetta. Ég man að ég fékk að keyra hjólböruna frá steypuhrærivélinni og langa leið og skella svo steypunni í grunninn og mér þótti þetta þó nokkuð ábyrgðarstarf og var hreykinn af. Enda keyrði ég hjólböruna mörg hundruð ferðir þetta sumar.
Ég talaði mikið við Óla í síma síðustu árin. Hann var mishress. Nú undir það síðasta leist honum illa á blikuna og kveið mikið hlutum. Hann bjó síðustu árin sem gestur í fyrrverandi húsi sínu hjá Gerði frænku sinni sem nú rekur skilst mér hundarækt á Þóreyjarnúp. En Gerður reyndist Óla vel en undir það síðasta þá leið Óla ekki vel.
Þegar tíðindi af fráfalli Óla barst mér fannst mér ég hafa misst bróður eða fósturpabba minn- minningarnar streymdu og allar góðar.
Við vorum í góðu sambandi stórfjölskyldan fyrir norðan, Gunna Kolla á Hvammstanga sem í raun sá um allt ásamt sr. Sigurði Arnarsyni, æskuvini mínum sem jarðsöng Óla.
Mér finnst gott að nefna það að athöfnin sem sr. Sigurður hélt var stórkostleg. Og organistinn og listakonan Pálina Fanney Skúladóttir spilaði lög sem m.a. Ásgeir Guðmundsson góðvinur Óla, Gunna Kolla og fleiri völdu. Við tókum undir í söng og jarðsett var í Hvammstangakirkju og Óli var lagður í leiði við hlið móður sinnar. Saman vorum við bræðurnir ég, Valgarður og Ragnar Ísleifur Bragason, og faðir okkar Bragi Kristjónsson kom með okkur þó hann sé ekki góður til heilsu þá kom hann með okkur og vildi kveðja Óla sinn, en mamma okkar Nína Björk var systir Óla Þórs og Dóra Gísla.
Elsku Dóri, Gerður, Gunna Kolla, stórfjölskyldan í Kópavogi og vinir Óla um allt land. Missir okkar er mikill en minningar, þær lifa.
Ákvörðun Óla ber að virða. Hann er nú með ömmu Jónínu og afa Gísla, móður sinni Láru og systur sinni Nínu Björk og mörgum, svo mörgum fleirum. Og ég veit að þau sem eru farin úr þessu lífi þau eru með okkur í okkar lífi, okkur sem ennþá lifum.
Þannig er það bara. Og þau gæta okkar alla tíð. Guð blessi minningu Ólafs Þórs Árnasonar.
Hann hvíli í friði.

Ari Gísli Bragason.