Jón Guðmundsson fæddist þ. 10. mars 1919 í Litlu-Brekku, Möðruvallaklausturssókn, í Arnarneshreppi, látinn 6. júlí 2014 að Hrafnistu í Reykjavík. Foreldrar: Guðmundur Jónsson bóndi í Litlu-Brekku f. 7. mars 1884 í Litlu-Brekku d. 9. desember 1964 og Ásdís Jónsdóttir f 18. febrúar 1885 Hellu á Árskógsströnd d 9. desember 1959. Föðursystir: Jórunn Jónsdóttir f 1874 d 1963. Bræður Jóns sammæðra: Þórhallur Marinó Kristjánsson f 1909 d 1944 og Angantýr Agnar Guðmundsson f 1912 d 1988. Fósturbræður Jóns, synir Friðriks Guðvarðarsonar f 1887 d 1967 og Ingibjargar Magnúsdóttur f 1885 d 1931: Axel Þór f 1922 og Ingi Ármann f 1927 d 1993. Jón lauk sveinsprófi í múrsmíði á Akureyri árið 1950 og múrmeistaraprófi 1953 á Akureyri. Félagi í Múrarafélagi Reykjavíkur 1954-1959. Jón starfaði sem múrarameistari til 1965. Fulltrúi hjá Fasteignamati ríkisins í Reykjavík 1965-1994 til 75 ára aldurs. Kona hans Hólmfríður Kristjánsdóttir f 1. september 1907 á Steinsstöðum í Öxnadalshreppi, Eyjafirði d 22. janúar 2001. Foreldrar: Kristján Þorsteinsson f 1851 d 1935 og Bergrós Erlendsdóttir f 1882 d 1971. Börn Jóns og Hólmfríðar: 1) Sverrir Geir f 1950 fv bankastarfsmaður, sambýliskona Rannveig Sigurgeirsdóttir f 1964 bókari. Eiginkona Sverris: Guðrún Skarphéðinsdóttir f 1949 d 1982. Börn: a) Erla Jóna f 1974 leiðbeinandi, sambýlismaður Andri Ottó Ragnarsson f 1974 hagfræðingur. Synir: Aron Logi f 2003 og Skarphéðinn Elí f 2012. b) Skarphéðinn Kristinn f 1981 d 2005. 2) Ásdís f 1951 húsmóðir, gift Þorleifi Gíslasyni f 1951 vélfræðingi. Börn: Jón Þór f 1985 menntaskólanemi og Eyrún f. 1988 snyrtifræðingur, gift Vilhelm Halldóri Svanssyni f 1977 smið. Áður átti Hólmfríður soninn 3) Garðar f 1935 bóndi, fv verslunarstjóri, faðir hans Ari Hallgrímsson f 1908 d 1959 endurskoðandi og verslunarmaður Akureyri. Eiginkona Garðars: Ingibjörg Jónsdóttir bóndi, húsfreyja f 1934. Börn: a) Guðrún f 1955 bókmennta- og menningarfræðingur gift Max Dager f 1956 forstjóra. Dóttir: Ingibjörg Iris Mai Svala f 1992 lögfræðingur. b) Friðrik f 1956 afgreiðslustjóri, sambýliskona Guðmunda Ingibjörg Þorbjarnardóttir f 1961 heimilishjálp. Dóttir Friðriks og Önnu Vígsteinsdóttur: Vilborg Hrönn f 1980 hjúkrunarfræðinemi, gift Christian Ekelund f 1983 lögreglumanni. Börn: Stella Ebba f 2011 og Hannes Karl Einar f 2013. Börn Friðriks og Kristínar Elínborgar Ívarsdóttur: Ívar Sveinn f 1989 rafvirki, háskólanemi í rafiðnfræði, unnusta Selma Lind Jónsdóttir f 1991 háskólanemi í iðnaðarverkfræði, Lára Björg f 1992 háskólanemi, Þórbergur f 1993 nýstúdent. c) Fríða f. 1960 flugumferðarstjóri, sambýlismaður Odd Stenersen f 1964 flugumferðarstjóri. Börn: Eydís f 1997 menntaskólanemi, Davíð f. 1999 grunnskólanemi. d) Sigríður f 1963 afgreiðslukona, áður gift Boga Sigurðssyni. Börn: Garðar f 1985 kafari, Birna Magnea f 1988 sölustjóri sambýlismaður Kári Þráinsson f 1986 þjónustufulltrúi. Synir: Alexander Máni og Patrekur Máni f 2010. Jón verður jarðsunginn frá Laugarneskirkju í Reykjavík í dag kl. 13.

Nú er hann Jón Guðmundsson, fósturafi minn, sofnaður svefninum langa.

Jón Anton Einar, eins og hann var skírður við skemmri skírn, varð 95 ára gamall, af eyfirskum og skagfirskum ættum, borinn og barnfæddur í Möðruvallaklausturssókn.

Guðmundur Jónsson í Litlu-Brekku, faðir Jóns, kvæntist aldrei en honum auðnaðist þessi eini sonur sem fæddist á heimili hans í Litlu-Brekku í Hörgárdal árið 1919. Guðmundur hafði nauðugur tekið við búinu eftir fráfall föður síns árið áður og bjó þar með móður sinni. Hann var ekki heilsusterkur og í raun áhugalaus um búskap. Vilji hans var að ganga menntaveginn, en því var ekki við komið. Það gerði hins vegar systir hans Jórunn Jónsdóttir sem er eina konan sem lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvallaskóla. Rík kvenfrelsisþrá var helsta driffjöður hennar að ganga menntaveginn og fyrir tilstilli Ólafar skáldkonu frá Hlöðum og með samþykki foreldra sinna var hún tekin inn í skólann og útskrifaðist þaðan 1895 með láði. Hún stundaði síðan kennslu og þýðingar úr erlendum málum.

Hvernig leiðir Guðmundar og Ásdísar barnsmóður hans lágu saman í Litlu-Brekku gæti mögulega skýrst af því að Jón í Litlu-Brekku faðir hans og Jón faðir hennar voru systkinasynir og að Ásdís, ung ekkja og einstæð móðir, hafi fengið þar húsaskjól með soninn Agnar.

Þegar Ásdís ól Guðmundi soninn Jón, þriðja barn hennar, átti hún margar raunir að baki.  Kristín móðir hennar dó frá henni ungri og ólst hún fyrst upp hjá föður sínum Jóni Jónssyni og konu hans Soffíu Björnsdóttur, hjá vandalausum, síðar á Hrísum og síðast á Völlum hjá sr. Stefáni og frú Sólveigu, sem reyndust henni afar vel. Ásdís átti eldri systur, Soffíu, samfeðra, sem fór til Vesturheims og rofnuðu tengsl þar með. Yngri systir hennar samfeðra var Guðrún Emilía sem giftist Birni Pálssyni í Hátúni á Árskógsströnd og yngri bróðir samfeðra, Björn Jónsson á Hjalteyri.

Rúmlega hálf-þrítug giftist hún Guðmundi Jónssyni sjómanni og eignuðust þau soninn Agnar. Guðmundur fórst með vélbátnum Fram frá Hrísey 1912 þegar drengurinn var á 1:a ári. Þremur árum fyrr hafði Ásdís alið soninn Þórhall Marinó, uppalinn hjá föður sínum Kristjáni í Sæborg.

Enn á ný átti það eftir að blasa við Ásdísi að sjá sér, og nú tveimur ungum sonum, farborða. En Jón varð föður sínum hjartfólginn allt hans líf og meðan hann var barn fékk Guðmundur að hafa hann hjá sér tíma og tíma í Litlu-Brekku við gleði þeirra feðga.

Ásdís hóf að sinna hjálpar- og hjúkrunarstörfum í sveitinni og vann sér traust allra með dugnaði, fórnarlund og elskusemi. Hagur hennar vænkaðist og byggði hún sér steinbæinn sinn Ásbyrgi á Sjávarbakka þar sem hún undi glöð við sitt með drengjunum sínum tveimur Agnari og Jóni. Jón var fremur veilt barn, var oft einn síns liðs sem barn meðan hún sinnti skjólstæðingum og lærði að bjarga sér. Veikindi hans í bernsku áttu þó ekki eftir að setja mark á líf hans, hann var fádæma heilsuhraustur sem fullorðinn.

Þegar Jón var 16 ár gamall, tók Ásdís að sér heimili Friðriks Guðvarðarsonar sem þá var nýorðinn ekkill með tvo syni, þá Axel og Inga, sem hún gekk í móðurstað. Bjuggu þeir feðgar og hún fyrst árum saman á Hillum á Árskógsströnd en seinna að Arnarholti við Hjalteyri.

Guðmundur, faðir Jóns, var afburða minnugur maður og fróður. Árið 1934, eftir fráfall móðurinnar, Önnu Runólfsdóttur frá Litla-Dunhaga í Hörgárdal, seldi hann jörð sína og hélt suður um fjöll sem farandbóksali en sneri aftur norður og hafði lögheimili á Brautarhóli í Svarfaðardal áður en hann varð vistmaður á Skjaldarvík. Þangað kom hann tiltölulega ungur maður sökum heilsubrests og þar gat hann lifað því lífi sem hann alltaf hafði þráð við lestur og skrif um ýmislegt sem hugur hans geymdi. Hann hafði snemma gott vald á íslenskri tungu eins og greina má af snjöllum frásögnum og ýmsum greinum sem hann ritaði. Hann skildi eftir sig umtalsvert magn handrita m.a. ævisögu sína og ýmsan fróðleik.

Jón fósturafi minn talaði fallegt, kjarnyrt íslenskt mál og norðlenskum framburði hélt hann ævilangt. Danska var honum hugleikin og hélt hann mikið upp á dansk-íslenska orðabók föðursystur sinnar Jórunnar Jónsdóttur í Litlu-Brekku. Jón var bókhneigður en vandlátur á lesefni. Sérstakt dálæti hafði hann á sveitunga sínum, skáldinu Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, bæði ljóðum hans og skáldsögunni Sólon Íslandus.

Fríða og Jón kynntust á Akureyri og trúlofuðust 1948, hún var þá hótelstýra sem yfirbryti í eldhúsi með mannaforráð á Hótel Norðurlandi. Þau voru samrýnd. Eftir að Jón fékk múrarameistarabréf 1953 flutti hann suður til Reykjavíkur og í kjölfarið kom Fríða með börnin tvö. Þau settust fyrst að í smáíbúðahverfinu í Steinagerði 7, þá í nr 5. Í Steinagerði 7 bjuggu stutt Garðar, sonur Fríðu og Ara Hallgrímssonar, og unnusta hans Ingibjörg. Úr borginni lá leið Jóns og fjölskyldunnar til Vestmannaeyja 1958, en þangað voru Garðar og Ingibjörg þá flutt á heimili föður hennar Jóns Guðjónssonar í Þorlaugargerði eystra og reistu þar sína fjölskyldu. Jón bjó með fjölskyldu sinni fyrst á Austurvegi 22 í húsi Nönnu og Gústa frá Gíslholti, fyrir tilstilli uppeldissystur Ingibjargar. Síðar var heimili þeirra á Kirkjubæjarbraut 7 hjá Fanneyju Ármannsdóttur frá Þorlaugargerði eystra og Sigurði Jóelssyni frá Sælundi. Strax varð hann eftirsóttur múrari enda vandvirkur, laginn og vandlátur á efni. Hann fann perlusand norðan Heimakletts og lagði á sig að sækja sandinn þangað á fjöru. Jón og fjölskyldan kynntist systkinum og fólki Ingibjargar bæði frá Suðurgarði og Oddsstöðum og þar voru líka Þorvaldur vinur Garðars frá Akureyri og Dóra kona hans frá Hlíðardal með fjölskyldum. Jón gekk til liðs við Karlakór Vestmannaeyja og kvartett sem 1. bassi. Hann hreifst af eyjalífinu, fór í Bjarnarey, fékk lundaháf hjá Jóni bónda í Þorlaugargerði eystra og veiddi í Litlhöfða. Samverustundirnar með fósturafa og ömmu urðu margar meðan þau bjuggu í Eyjum, hjá þeim áttum við eldri systkinin athvarf þegar yngri systur okkar fæddust, og við öll bæði hversdags og á hátíðis- og tyllidögum. Minnisstætt er þegar við skiptumst á gjöfum í Þorlaugargerði eystra seint á aðfangadagskvöldum við mikla kátínu og sumur þar með þeim í heyskap. Þegar neðansjávavargos hófst 1963 komst Jón á báti að gosstöðvum Surtseyjar og þótti mikilfenglegt.

Flest mannvirkja sem hann vann við í Eyjum eyðilögðust í náttúruhamförunum á Heimaey 1973 m.a. miklar undirstöður véla Rafstöðvarinnar og læknisbústaðurinn v. Landagötu, steinveggur við innganginn í Grænuhlíð 7 svo fátt eitt sé talið. En vandaðar endurbætur hans í Þorlaugargerði eystra halda enn.

Þrátt fyrir að Jón flutti með fjölskyldu sína suður, fylgdi hugur Guðmundar þeim alltaf.  Þeim var það mikið tilhlökkunarefni að hittast fyrir norðan á hverju sumri og áttu samverustundir með Friðriki, Ásdísi, Inga og Axel á Arnarholti við Hjalteyri, með heimilisfólkinu í Hátúni og vinafjölskyldum og kærum ættingjum inni á Akureyri. Fríða minntist elskusemi Ásdísar með hlýju og stutt var af Hjalteyri á Skjaldarvík þar sem bæði Bergrós móðir Fríðu, Guðmundur og Jórunn voru vistmenn.

Þar kom að Jóni bauðst atvinna í Reykjavík og fluttu þau frá Eyjum. Fyrst um sinn starfaði hann við iðnstörf með Héðni miklum fjölskylduvini. Bjuggu Jón og Fríða fyrst í Hamrahlíð 21, síðar á Langholtsvegi 113 og síðast í eigin húnæði að Torfufelli 25. Árið 1965 urðu kaflaskil á atvinnuferli hans þegar hann fékk ráðningarsamning sem fulltrúi hjá Fasteignamati ríkisins. Hann var ráðinn til að taka þátt í því merka brautryðjendastarfi stofnunarinnar að ástandsmeta og skrá allt húsnæði í borginni. Nýttist iðnþekking hans, nákvæmni og vönduð vinnubrögð hans þar vel. Starfaði Jón farsællega við stofnunina til 75 ára aldurs, en var lausráðinn síðustu fimm árin á skrifstofu og í skjalasafni. Var hann við starfslok enn fullur starfsorku.

Jón bóndi í Litlu-Brekku, föðurafi Jóns, var ættaður frá Stóra-Dunhaga í Hörgárdalnum. Hann var meðhjálpari á Möðruvöllum, góður verkmaður og lagaði hómópatameðul. Þau störf sem honum voru falin í þágu sveitarinnar rækti hann svo að ekki var að fundið. Líkt og afi hans í Litlu-Brekku leysti Jón öll verkefni svo að aldrei féll skuggi þar á. Um kvöldin sat hann löngum stundum við skrifborðið sitt, einbeittur yfir fasteignamati, útreikningum og fasteignateikningum og festi einnig ýmsa hugrenninga á blað sér til gamans með fallegri rithönd. Hann bjó yfir miklum sjálfsaga og reglusemi í hvívetna en reykti afbragðs píputóbak og hirti pípurnar af mestu kostgæfni.

Hann var snyrtimenni svo eftir var tekið, yfirhöfnin einatt dökkblár rykfrakki og gekk jafnan með hatt. Jón fór allra ferða sinna fótgangandi eða með strætisvagni og átti aldrei bíl. Hann var landfróður og átti margar góðar minningar frá ferðalögum um Ísland og óbyggðir þess með Axel fósturbróður sínum á Rússajeppa og Laplander sem Axel átti og ók. Áhugi Jóns á stjórnmálum og málefnum líðandi stundar nýttust m.a. starfi Sjálfstæðisflokksins í austurborginni og í Breiðholti og gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Jón var sómamaður, traustur, flinkur og klár. Mannvirðing og yfirvegun einkenndi fasið en hann var léttur í lund, glettinn og spaugsamur og hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Á látlausum og fallegum heimilum Jóns og Fríðu var glatt á hjalla. Gestrisni og höfðingsskapur var aðalsmerki þeirra hjóna og stóðu dyrnar okkur ávallt opnar. Fyrir allar góðgerðir í okkar hlut og góðu minningarnar um þau Jón og Fríðu ríkir ævinlega þakklæti hjá foreldrum mínum, systkinum, tengdabörnum og langafa- og langömmubörnum.

Jón var einstaklega barngóður og hjartahlýr og tók málstað lítilmagnans. Hann stóð með allri fjölskyldunni sinni af kærleika í gleði og sorg, eins og öll værum við angar af sama meiði en þess má til gamans geta að þegar nánar er að gáð erum við fósturafi bæði niðjar Hallgríms Eldjárnssonar f. 1723.

Eftir missi Fríðu konu sinnar 2001 eyddi Jón ævikvöldinu, með daglegum heimsóknum Sverris og Ásdísar, á heimili sínu Hrafnistu í Reykjavík þar sem hann lést 6. júlí s.l.

Blessuð sé minning Jóns Guðmundssonar.

Guðrún Dager Garðarsdóttir (Gunna).