Ragnheiður Ingvarsdóttir fæddist á Undirvegg í Kelduhverfi 4. apríl 1926. Hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 18. september 2014. Foreldrar hennar voru hjónin Ingvar Sigurgeirsson bóndi á Undirvegg, f. 23.10. 1889, d. 2.11. 1952, og Sveinbjörg Valdimarsdóttir, f. 20.9. 1895, d. 1.6. 1963, þau skildu 1943. Systkini Ragnheiðar eru: 1) Jóhanna, f. 13.4. 1916, d. 16.3. 1998, gift Árna Jónassyni, f. 1916, d. 1998, 2) Óskar, f. 5.2. 1918, d. 5.8. 1992, kvæntur Guðrúnu Árnadóttur, f. 1922, 3) Kristbjörg, f. 6.9. 1919, d. 3.1. 2010, gift Herberti Tryggvasyni, f. 1917, d. 2005, 4) Svanhvít, f. 18.9.1923, d. 11.6. 2007, gift Jónasi Þórólfssyni f. 1924, d. 1997, 5) Baldur, f. 21.2. 1930, d. 23.4. 2005, kvæntur Önnu Jónínu Valgeirsdóttur, f. 1931, d. 2012, 6) Auður, f. 28.9. 1934, gift Agli Jónssyni, f. 1930. Ragnheiður hóf sambúð, árið 1951, með Baldvin Björgvinssyni, útgerðar- og hafnsögumanni á Raufarhöfn, f. 17. júlí 1924, d. 12. apríl 1992. Foreldrar hans voru hjónin Björgvin Jóhannsson, f. 23.3. 1892, d. 2.9. 1949, og Dýrfinna Sveinsdóttir, f. 19.8. 1893, d. 8.2. 1975. Þau bjuggu alla sína búskapartíð á Raufarhöfn. Ragnheiður og Baldvin eignuðust tvær dætur, 1) Ernu Fjólu Baldvinsdóttur, f. 29.9. 1949, gifta Vilhjálmi Vilhjálmssyni, f. 1944, d. 2003; þau eiga saman tvær dætur og tvær dótturdætur; og 2) Dýrfinnu Baldvinsdóttur, f. 22. apríl 1954, gifta Guðfinni Johnsen, f. 20. júní 1949, þau skildu árið 2003. Þeirra börn eru: a) Olga Ragna Johnsen, f. 19. desember 1972, hennar dætur eru Edda og Maja, og b) Baldvin Johnsen, f. 11. nóvember 1976, kvæntur Aldísi Gunnarsdóttur, f. 29. maí 1977. Þeirra börn eru Draupnir Dan, f. 8. nóvember 2003, og Karitas Ósk, f. 16. september 2007. 3) Árni Svavar Johnsen, f. 29. júní 1994, unnusta Heiða Helgudóttir, f. 1993. Ragnheiður sinnti ýmsum störfum um ævina, m.a. verslunarstörfum, kennslu og húsmóðurstörfum. Eftir lát Baldvins flutti Ragnheiður á Laufvang 16 í Hafnarfirði og bjó þar til ársins 2013, en þá fluttist hún á hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði og bjó þar til æviloka. Útför Ragnheiðar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 7. október 2014, kl. 15.

Margar af mínum bestu æskuminningum eru tengdar litla þorpinu við nyrsta haf, þar sem ammanabba mín og afibulli áttu heima.

Ég man hversu gott það var að vakna sem lítil stúlka í ömmu og afa húsi, trítla niður í eldhús til ömmu sem lyfti mér oftar en ekki upp á eldhúsbekkinn og leyfði mér að aðstoða sig við að kreista safann úr appelsínu. Safann drakk ég svo ásamt því að gæða mér á hafragraut og lifrarpylsu af bestu lyst. Í minningunni skín alltaf Sólin og söngur fuglanna berst inn að utan í takt við vélarhljóðin frá trillunum að leggja úr höfn. Meira að segja gúanólyktin frá Síldarverksmiðjunni, sem oftar en ekki lá yfir litla þorpinu, er góð þegar ég hugsa til baka, þó mér hafi reyndar fundist hún heldur slæm á sínum tíma.
Ég man hvernig amma þerraði mig vandlega eftir böð og signdi mig svo áður en hún klæddi mig í hreinan ullarnærbol. Það átti sko ekki að komast kul að barninu og hvað þá eitthvað annað. Svo ýmist las hún fyrir mig eða sagði mér sögur. Gamla bókin hennar um Buslu var ævinlega í miklu uppáhaldi og alltaf hlógum við jafn dátt en mest spennandi fannst mér samt þegar hún sagði mér frá þeim tíma þegar hún var sjálf lítil stúlka að alast upp í torfbænum að Undirvegg í Kelduhverfi. Hún sagði mér meðal annars frá geitunum vinalegu sem gáfu heimsins bestu mjólk, mömmu sinni, langömmu Sveinbjörgu, sem henni þótti svo fjarskalega vænt um og álfum og huldufólki sem bjó í nágrenninu. Mér þótti sérstaklega merkilegt að í bænum skyldi hafa verið moldargólf, fyrir utan baðstofuna sem var þiljuð og upphituð með kamínu og ég þreyttist aldrei á að hlusta á ömmu lýsa því í smáatriðum hvernig húsið var byggt og hvernig lífið var í þá daga.

Ég man sumarið sem ég hjálpaði ömmu í bakaríinu sem starfrækt var aftan við húsið sem heitir Álfaborg. Þá vöknuðum við eldsnemma á morgnana og bökuðum sérbökuð vínarbrauð og snúða sem síðan voru seld glóðvolg í kuffélaginu þegar það opnaði. Það sumar fór amma með mig í mína fyrstu sólstöðugöngu og sú upplifun var algjörlega ólýsanleg með orðum en það vita þeir sem hafa upplifað að hvergi er miðnætursólin fegurri en við nyrsta haf.
Hún amma mín var einstaklega æðrulaus kona og tók jafnan því sem að höndum bar með mikilli stillingu. Samband okkar var bæði gott og sérstakt, enda áttum við ýmislegt sameiginlegt, fyrir utan það að heita báðar Ragnheiður og vera kallaðar Ragna. Til dæmis það að vera báðar sérlega ljósar á hörund og þykka hárið var ég svo heppin að fá frá ömmu, að vera báðar miklir og sannfærðir spíritistar, að vera báðar hrifnar af litskrúðugum klæðum, fannst fjólublár fegurstur lita og ekki verra að hafa glimmerþræði hér og þar, að vera báðar handverkskonur, þó ég hafi reyndar ekki tærnar þar sem amma hafði hælana í þeim efnum, að vera báðar leikhúsunnendur og ótal sýningar sáum við saman og báðar nutum við þess að vera í samvistum við dýr.
Eftir að amma flutti til Hafnarfjarðar, fór ég oft með hana ýmissa erinda, einsog í læknisheimsóknir, verslanir og það sem okkur þótti báðum skemmtilegast, að kaupa ný klæði á hana. Þá sungum við gjarnan með útvarpinu í bílnum en amma hafði afar fallega söngrödd. Oftar en ekki enduðum við þessar ferðir á kaffihúsum og ræddum heima og geima, okkur skorti aldrei umræðuefnin.(

Hennar heimili var alla tíð galopið fyrir mér, jafnt að nóttu sem degi. Jafnvel á erfiðustu tímabilum í mínu lífi, þegar flestar dyr voru mér lokaðar, þá var hún til staðar, alltaf jafn hlý og góð og aldrei dæmandi. Henni þótti vænt um mig eins og ég er og mér um hana.((

Elsku besta amma mín, minning þín mun ávalt lifa í hjarta mínu. Og svo hittumst við á miðri leið, eins og þú sagðir við mig skömmu áður en þú kvaddir og ég vissi að þú áttir við þegar tjöldin blakta. Það verða fagnaðarfundir!
Ég kveð þig með eftirfarandi ljóði sem minnir mig alltaf á þig og sólstöðugönguna okkar á Raufahafnarhöfðanum, þá undurfögru nótt fyrir þrjátíu árum síðan. Þar vaktir þú takt náttúrunnar og hinnar eilífu hringrásar innra með mér borgarbarninu og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát.

Nú blika við sólarlag sædjúpin köld;

(ó, svona ætti að vera hvert einasta kvöld, (

með hreinan og ljúfan og heilnæman blæ,

(og himininn bláan og speglandi sæ.

((Ó, ástblíða stund, þú ert unaðssæl mér, (

því allt er svo ljómandi fagurt hjá þér, (

og hafið hið kalda svo hlýlegt og frítt, (

og hrjóstruga landið mitt vinlegt og blítt. ((

Og fjallhnúka raðirnar rísa í kring, (

sem risar á verði við sjóndeildarhring; (

og kvöldroðinn brosfagur boðar þar drótt

(hinn blíðasta dag eftir ljúfustu nótt.((

(Þorsteinn Erlingsson)((

Góða vegferð á leið ljóssins elskulega amman mín!(
Þín nafna,

Ragnheiður (Ragna) Sól.