Eggert Garðarsson fæddist í Vestmannaeyjum 3. febrúar 1957. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 29. janúar 2016.
Foreldrar Eggerts voru Edda Sigrún Svavarsdóttir, f. 1. janúar 1936, d. 29. júní 2011, og Garðar Þorvaldur Gíslason, f. 22. júní 1931. d. 17. júní 2013.
Systkini Eggerts eru: Svavar, f. 24. apríl 1954, kvæntur Valdísi Stefánsdóttur, börn þeirra eru Baldvin Þór, kvæntur Hörpu Sigmarsdóttur, börn þeirra eru Valdís Bára, Sigmar Þór, Marel og Arnór. Edda Sigrún, í sambúð með Ragnari Þór Ragnarssyni, börn þeirra: Ragna Malen og Rakel María.
Gísli Þór skipstjóri, f. 17. janúar 1956, kvæntur Elvu Ragnarsdóttur, börn þeirra eru Anna Lára, í sambúð með Birni Friðrikssyni, börn þeirra eru Tanja Rut og Aníta Sif. Garðar Þorvaldur.
Sigríður, f. 25. janúar 1959, gift Hjalta Hávarðssyni, börn þeirra eru Hávarður Þór, kvæntur Alinu Marin. Erna Dögg, í sambúð með Unnari Óla Ólafssyni, og Breki Örn.
Lára Ósk, f. 16. október 1961, gift Jósúa Steinari Óskarssyni, börn Láru eru Þórey Anna, í sambúð með Bóasi Eiríkssyni, barn þeirra er Elísa. Svavar Kári, í sambúð með Bjarteyju Helgadóttur, og Guðmundur Ásgeir.
Garðar Rúnar, f. 17. nóvember 1962, kvæntur Rindu Rissakorn, börn þeirra eru Sæþór Örn, í sambúð með Söru Davíðsdóttur, og Sigríður Lára.
Eggert kvæntist 11. febrúar 1979 Svövu Björk Johnsen. Foreldrar hennar voru Hlöðver Johnsen, f. 11. febrúar 1919, d. 10. júlí 1997, og Sigríður Haraldsdóttir, f. 29. júní 1916, d. 17. febrúar 1993.
Systkini Svövu eru: Ágústa Guðmundsdóttir, f. 5. janúar 1937, gift Guðna Pálssyni, látinn; Margrét Johnsen, f. 7. nóvember 1942, gift Hrafni Steindórssyni; Sigríður Johnsen, f. 28. júlí 1948, gift Garðari Jónssyni; Anna Svala Johnsen, f. 3. janúar 1955, gift Guðjóni Jónssyni; Haraldur Geir Hlöðversson, f. 24. júlí 1956, kvæntur Hjördísi Kristinsdóttur.
Eggert og Svava eignuðust tvö börn; Eddu Björk, f. 28. mars 1976, dætur hennar eru; Alexandra Bía Sumarliðadóttir, f. 12. apríl 1995, og Sara Sif Jónsdóttir, f. 14. nóvember 2001. Anton Örn, f. 12. júní 1991, í sambúð með Hildi Rún Róbertsdóttur.
Eggert fæddist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Hann bjó fyrstu uppvaxtarárin á Heiðarvegi 11 í Vestmannaeyjum. Árið 1967 flutti Eggert með foreldrum sínum og systkinum á Illugagötu 50. Frá 10 ára aldri eyddi Eggert sumrinu hjá Guggu og Gústa á Selfossi. Eggert gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og kláraði almennt grunnskólapróf, síðar kláraði hann meistarann í vélvirkjun við Iðnskólann í Vestmannaeyjum.
Eggert starfaði mestalla ævi á Vélaverkstæðinu Þór við hlið foreldra sinna og bræðra þar til veikindi hans gerðu hann óvinnufæran. Ásamt því að vinna á Vélaverkstæðinu Þór starfaði Eggert sem vallarstjóri á knattspyrnuvöllum ÍBV ásamt því að sitja í stjórn knattspyrnuráðs ÍBV í sautján ár.
Útför hans fer fram frá Landakirkju í dag, 6. febrúar 2016, klukkan 14.

Heimsins besti pabbi.

Þau fjörtíu ár sem þú leiðbeindir mér í gegnum lífið, kenndir þú mér margt, ég var svona stelpustrákurinn þinn fram eftir aldri, fékk járnbrautarlest í jólagjöf fyrstu jólin mín, í framhaldi af því kaus ég frekar bílabraut en dúkkuvagn. Þú kenndir mér alla þessu strákahluti. Til dæmis að smíða, bora í veggi og að tengja rafmagn, að því bý ég enn í dag elsku, pabbi minn.  Þú varst svo handlaginn, pabbi gat lagað allt.
Þegar mig langaði í hest í fermingargjöf, þá fékk prinsessan auðvitað hest. Þá var hún Skutla mín keypt og flutt til Eyja. Það þýddi gríðarlega vinnu fyrir ykkur mömmu að standa í þessu hestastússi mínu en allt  gerðir þú fyrir Eddu þína.  Svo þegar á pæjuárin var komið fékk ég áhuga á því að sauma kjóla og þá eyddir þú heilu kvöldunum með mér að sníða kjóla. Vandvirkni þín og nákvæmni var svo mikil að það var aðdáunarvert að fá að vinna með þér.

En svo fékkstu langþráða prinsinn þegar ég var fimmtán ára, hann elskulega Anton Örn sem þú tókst með þér í fótboltastússið og á vellina og voru þið límdir saman.  Fjórum árum síðar kom hún Alexandra Bía mín í heiminn og þar voru þið svo sannarlega til staðar. Þá varstu ekki bara heimsins besti pabbi heldur varstu orðinn heimsins besti afi líka. Þið mamma studduð mig ávallt í gegnum allt og voruð alltaf boðin og búin að passa litlu stelpurnar mínar, Alexöndru Bíu og Söru Sif, sem eru heldur betur ríkar að hafa alist upp í svona mikilli nánd við sinn yndislega afa. En ég hætti samt aldrei að vera prinsessan hans pabba og alltaf passaðir þú vel upp á mig.  Gott dæmi um það er að  í haust þegar ég var í reglulegum hittingi okkar grunnskólabekkjarsystra. Það var mikið gaman og við vorum aðeins frameftir. Um eitt leytið hringir síminn og ein segir: Edda er síminn þinn að hringja? Já, segi ég,  þetta er örugglega hann pabbi að tékka á mér. Þær fara að hlægja en urðu smá hissa þegar ég svara og tala við pabba sem var bara að tékka á litlu 39 ára stelpunni sinni , hvort hún myndi ekki örugglega koma heim og svo bauð hann mér góða nótt.
Þú varst ekki bara góður pabbi og afi, þú varst líka svo góður við elskulegu æskuástina þína hana mömmu sem þú kynntist þegar hún var aðeins 15 ára. Og alla tíð síðan í gegnum súrt og sætt stóðuð þið æskuástirnar saman.
Ég minnist þess einnig hversu góður þú varst þeim ömmu Bíu og afa Súlla og eftir sviplegt fráfall elsku ömmu Bíu þá fluttum við með afa Súlla og hugsuðuð þið mamma svo yndislega vel um hann allt til hans dauðadags. Einnig var samband þitt og ömmu Eddu svo innilegt að það var aðdáunarvert.

Eftir erfið síðustu ár þá gerði sú barrátta okkur að sterkari, ríkari og betri manneskjum. Kenndi okkur að meta hvað það er sem skiptir máli í lífinu og hve hversdagslegir hlutir eru dýrmætir. Undir það síðasta börðumst við fyrir hverri stund saman. Það lýsir þér vel hve mikið elsku perlunum okkar á 13-E, Einari og stelpunum upp á blóðskilun, Lovísu og Runólfi lækni ásamt mörgum fleirum, sem tóku þátt í verkefninu með okkur, dáðust að þér og hversu mikið þeim þótti vænt um þig. Unga manninum sem stóð hvert áfallið á fætur öðru með æðruleysi og sýndi aldrei uppgjöf. Þú varst með stórt og gott hjarta, elsku pabbi, vildir allt fyrir alla gera.
Þennan tíma sem þú varst í blóðskilun þá varst þú með pöntunarþjónustu á vettlingum sem elsku mamma prjónaði og passaðir vel upp á það að allir fengju par og einnig fólkið þeirra. Þú vildir alltaf borga fyrir þig til baka.

Þú ert hetjan mín, kletturinn minn og fyrir þig verð ég endalaust þakklát.
Þetta risa hjarta sem inni í þér bjó. Þú gast stundum verið svolítið ákveðinn og kannski smá reiður en varst fljótur að jafna þig og vildir að allir væru vinir.
ÍBV og Liverpool voru þín lið og við gátum eytt mörgum stundum í að skiptast á skoðunum varðandi þau, alls ekki alltaf sammála en sá vægir sem vitið hefur meira og í okkar sambandi þá var það ekki oft þú, þrátt fyrir að hafa þrjósku frá þér þá var ég aldrei nálægt því að sigra þig í henni.

Þú barðist fram allt fram á síðustu stundu, komst öllum á óvart hversu harður og mikill lífsvilji var í þér.
Það var bara einfaldlega of mikið á þig lagt, aldrei kvartaðir þú og tókst hverju áfallinu á fætur öðru eins og sannkölluð hetja.

Undanfarna daga þá hefur síðasta kvöldið okkar saman yljað hjarta mitt. Við vorum svo kát ég, þú og Bía. Þú sagðir mér frá hversu góða stund þú áttir með honum Jóa þínum fyrr um daginn. Þið voruð svo miklar vinkonur. Vorum að skipuleggja afmælið þitt sem var á næstu dögum og þú varst alveg með á hreinu hvað ætti að vera boðstólnum svampterta með kokteilávöxtum og kremi. Bía samdi við þig um að gera þá köku ef hún mætti gera aðra fyrir okkur hin þar sem þú varst sá eini í fjölskyldunni sem borðaðir þessa köku. Við áttum gott kvöld, ég kyssti þig bless og sagði sjáumst á morgun love U og þú sagðir  Love U 2 . Eftir það sofnaðir þú og vaknaðir aldrei almennilega aftur. Nú á 59 ára afmælisdaginn þinn sit ég hér og reyni að koma frá mér orðum í minningargrein. Ég var alls ekki á leiðinni að fara gera það í dag, við ætluðum að fá meiri tíma. Þess í stað verð ég að ylja mér við okkar yndislegu minningar um heimsins besta pabba.
Þú varst svo fallegur og friðsæll þegar þú kvaddir okkur og veit ég að allt okkar góða fólk mun taka vel á móti þér, þú ert kominn í faðm ömmu Bíu, afa Súlla, afa Garðars og ömmu Eddu. Hitta hann Lalla þinn, þið fylgist saman með ÍBV strákunum ykkar og svo getur Erró farið með þig í gönguferð.
Þú munt ávallt, hvern einasta dag, fylgja mér í hjartanu og ég mun alltaf vera prinsessan hans pabba.
Ég læt fylgja ljóðið sem þú söngst/raulaðir fyrir mig, Anton Örn bróður, Alexöndru Bíu og Söru Sif eftir að hafa sagt okkur einhverja skemmtilega heimabúna Barbabba sögu fyrir svefninn.

Sofðu unga ástin mín,
úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,
minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.
(Jóhann Sigurjónsson)


Takk fyrir mig, elsku besti pabbi.
Þín,


Edda.