Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Til að bíta höfuðið af skömminni gagnvart ellilífeyrisþegum hefur heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, mælt fyrir frumvarpi um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu."

Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra eins og flestir vita. Hann er maðurinn sem heldur þúsundum ellilífeyrisþega við þau ömurlegu lífsskilyrði að þetta fólk lifir við sult og betl og án allra lífsþæginda á ævikvöldinu. Getur ekki leitað til læknis, á ekki fyrir lyfjum, á ekki fyrir mat og getur ekki veitt sér eitt né neitt því það á ekki peninga, ekki einu sinni fyrir nauðþurftum, svo rækilega er Bjarni fjármálaráðherra búinn að sauma að þessu fólki. Á sama tíma og ástandið er svona ömurlega bágborið hjá þúsundum ellilífeyrisþega leyfir Bjarni sér að benda á aukinn kaupmátt, sem á að bjarga öllu en gerir ekki, svo langt í frá, fyrir þennan hóp og ég spyr: Njóta ekki allir aukins kaupmáttar upp eftir öllum skalanum og þar með þeir sem eru með milljónirnar í mánaðarlaun? Sjálfur var Bjarni fjármálaráðherra ofan á sín góðu laun að fá á síðasta ári eingreiðslu frá 1. mars til áramóta, vel á aðra milljón króna. Svo kemur þessi maður fram í fjölmiðlum og tilkynnir „stuld“ á eingreiðslu afturvirkt til ellilífeyrisþega frá 1. maí 2015 eins og allir láglaunahópar fengu. Alveg er sama þó að ríkið hagnist um tugi eða jafnvel hundruð milljarða; aldrei er neitt til skiptanna fyrir eldri borgara þó svo að það séu þeir sem mest þurfa á verulegri kjarabót að halda. „Bólginn ríkiskassi“ stóð í fyrirsögn fyrir stuttu, skyldi eiga að nota fjármagnið til að ala þá ríku?

Hvað eru mannsæmandi laun?

Mannsæmandi laun hjá ellilífeyrisþegum eru ekki undir 300 þúsund kr. á mánuði og skatturinn frádreginn aðeins helmingur af því sem hann er í dag. Þá væri hægt að tala um viðunandi laun fyrir þá 31 þúsund ellilífeyrisþega, sem eru með mismikið undir 300 þús. kr. á mánuði. Það er til margt ríkt eldra fólk, t.d. foreldrar Bjarna fjármálaráðherra, sem geta leyft sér að kaupa fasteign á Flórída fyrir tugi milljóna að sagt er og í framhaldi af því trúa því ekki margir að Bjarni hafi ekki vitað af Borgunarævintýrinu, þar sem föðurbróðir hans er sagður hafa keypt drjúgan hlut og hagnast um milljarða. Þetta er Ísland í dag.

Heilbrigðisráðherra bætti um betur

Til að bíta höfuðið af skömminni gagnvart ellilífeyrisþegum hefur heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, mælt fyrir frumvarpi um greiðsluþátttöku í heilbrigðikerfinu. Það lítur þannig út að þeir sem þurfa ekki eins oft á þjónustunni að halda greiða meira en þeir sem þurfa oftar og meira á svipaðri þjónustu að halda. Þetta segir að þeir sem eru minna veikir niðurgreiða fyrir þá sem eru meira veikir. Ríkið leggur auðvitað ekki til krónu í þessa snilldarhugmynd. Þar sem ég þekki ofurlítið til vinnubragða Kristjáns Þórs frá því hann var bæjarstjóri hér á Akureyri blöskra mér ekki, ég verð að segja það, þessi dæmalausu vinnubrögð hans nú í heilbrigðismálunum. Allt fyrir ellilífeyrisþegana hjá þeim Bjarna fjármálaráðherra og Kristjáni Þór heilbrigðisráðherra. Guð blessi Ísland.

Höfundur er eldri borgari.