Gísli Páll Pálsson
Gísli Páll Pálsson
Eftir Gísla Pál Pálsson: "Við hin eigum að skammast okkar þegar við vorkennum okkur sjálfum vegna hégómlegra hluta sem skipta ekki máli í lífinu."

Afsakið orðbragðið. Verð bara svo rosalega pirraður þegar ég hitti fólk sem vorkennir sjálfu sér. Og oftar en ekki út af tiltölulega veigalitlum hlutum. Hefur ekki efni á nýjasta æpóninum sem var að fara í sölu, kennararnir í skólunum eru leiðinlegir, veðrið er búið að vera svo vont, allir krakkarnir mega vera lengur úti á kvöldin en ég og svo svo framvegis. Öll höfum við heyrt svona sjálfsvorkunnarvæl og við beittum þessu örugglega öll á okkar foreldra þegar við vorum að reyna að semja um lengri útivistartíma á unglingsárunum. Pabbi var reyndar ansi strangur á útivistartímanum þannig að ég held að ég hafi í „alvöru“ verið sá sem fékk að vera styst úti á kvöldin. Eða ekki.

Mér finnst við öll, eða flest, vera alltof upptekin af því sem fáum ekki, höfum ekki og getum ekki. Og erum síðan að vorkenna okkur vegna þessa meinta skorts á ofangreindu eða því hvað allir aðrir eru vitlausir og leiðinlegir við okkur. Meira að segja alvöruíþróttamenn kvarta yfir því að dómarinn hafi valdið því að leikurinn tapaðist. Menn sem fá borgaða mikla peninga fyrir að hlaupa á eftir bolta og koma honum í netmöskva. Væluskjóður sem vorkenna sjálfum sér og ættu að hunskast til að hugsa meira um hvað þær geti gert sjálfar til þess að vinna leikinn í stað þess að kenna öðrum um ófarirnar. Og vorkenna sjálfum sér í leiðinni.

En verði ég pirraður á að hitta fólk í sjálfsvorkunnarhugleiðingum þá er það algjör hátíð miðað við það hvað ég verð gjörsamlega brjálaður þegar ég fer sjálfur í þennan ömurlega gír. Já, ég á það alveg til að vorkenna sjálfum mér, og sennilega við öll. Og út af þessum smáu hlutum sem skipta engu máli í lífinu. Nema hjá mér þá er æpónaleysið ekki vandamál, bara kostur. Ég er algjörlega farinn að gera mér grein fyrir því þegar ég dett í þennan dökkálfagír en ræð engu að síður ekki alltaf við það og verð þess vegna svona reiður. Við sjálfan mig.

Þeir sem ættu í raun rétt á að vorkenna sjálfum sér, ef svo skringilega mætti að orði komast, eru þeir sem glíma við alvarlega sjúkdóma. Banvæna sjúkdóma og geta ekkert að því gert. En það góða fólk hefur oft náð einhvers konar sátt við Guð og menn. Sýna af sér æðruleysi sem maður hreinlega skilur ekki. Við hin eigum að skammast okkar þegar við vorkennum okkur sjálfum vegna hégómlegra hluta sem skipta ekki máli í lífinu. Hættum að vera sjálfsvorkennandi væluskjóður.

Höfundur er forstjóri í Mörk, hjúkrunarheimili.