Guðrún Jónasdóttir, Dúna, fæddist í Vestmannaeyjum 17. janúar 1930. Hún lést á Landspítalanum 18. júní 2016.
Foreldrar hennar voru Jónas Sigurðsson í Skuld, f. 29.3. 1907, d. 4.1. 1980, og Guðrún Kristín Ingvarsdóttir, f. 5.3. 1907, d. 26.3. 2005. Systkini Guðrúnar eru: Ingunn, f. 1928, d. 2013, Sjöfn, f. 1932, Sigurgeir, f. 1934 og Sigurjón, f. 1940.
Guðrún giftist Steinari Júlíussyni, f. 30.1. 1930, feldskera frá Mjölni í Vestmannaeyjum, þann 3. apríl 1954. Foreldrar hans voru Júlíus Þórarinsson, f. 5.7. 1906, d. 2.6. 1983, og Sigurragna M. Jónsdóttir, Ragna, f. 25.10. 1905, d. 20.12. 1995. Börn Guðrúnar og Steinars eru: 1) Jónas Þór Steinarsson, f. 2.10. 1946, kvæntur Þóreyju Morthens, f. 25.10. 1947, og eru synir þeirra: Guðjón Ragnar Jónasson, f. 25.5. 1974 og Jónas Páll Jónasson, f. 14.8. 1976. Jónas Þór ólst upp hjá móðurforeldrum sínum. 2) Ragna Steinarsdóttir, f. 22.5. 1957, gift Þorsteini Þórhallssyni, f. 2.7. 1956, og eru börn þeirra: Þóra Þorsteinsdóttir, f. 19.10. 1977, Guttormur Þorsteinsson, f. 11.3. 1988 og Steinar Þorsteinsson, f. 2.9. 1993. 3) Júlíus Þórarinn Steinarsson, f. 1.12. 1958, kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur, f. 15.1. 1959, og eru synir þeirra: Steinar Júlíusson, f. 6.1. 1980 og Oddur Júlíusson, f. 21.6. 1989. 4) Eyvindur Ingi Steinarsson, f. 13.12. 1960, var kvæntur Báru Grímsdóttur, f. 24.4. 1960 og eru synir þeirra: Andri Eyvindsson, f. 2.4. 1986, Eysteinn Eyvindsson, f. 7.9. 1993 og Júlíus Eyvindsson, f. 8.8. 1997. 5) Gunnar Kristinn Steinarsson, f. 2.7. 1964, var kvæntur Mirja Kuusela, f. 12.5. 1964, d. 1.5. 2004, og eru dætur þeirra: Tira Tuila Gunnarsdóttir, f. 19.4. 1993 og Iris Gunnarsdóttir, f. 7.2. 1995.
Guðrún ólst upp í Vestmannaeyjum hjá foreldrum sínum sem bjuggu þar á nokkrum stöðum. Síðast bjó hún hjá þeim í Skuld þar sem Ingunn amma hennar bjó einnig. Guðrún og Steinar bjuggu á Hilmisgötu 1 í Vestmannaeyjum uns þau fluttu til Reykjavíkur 1963. Þar bjuggu þau lengi í Safamýri og nú síðasta aldarfjórðunginn í Trönuhjalla í Kópavogi. Guðrún stundaði íþróttir sem unglingur í Eyjum og var vel á sig kominn fram á seinni ár og voru þau hjón leiðbeinendur í jóga í Heilsuræktinni og Jógastöðinni Heilsubót. Að loknu gagnfræðaprófi í Eyjum starfaði hún yfir tíu ár á Ritsímanum í Eyjum en var síðan heimavinnandi á meðan börnin voru ung. Síðan starfaði hún hjá Orðabók háskólans í um 20 ár en einnig við prófayfirsetu í Háskóla Íslands fram undir áttrætt.
Útför Guðrúnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 30. júní 2016, klukkan 15.

Gjörðu svo vel Sigrún en þetta eru bara afgangar. Þetta sagði tengdamóðir mín  iðulega þegar mér var boðið að setjast að borðum, þó að afgangarnir væru veislumatur með allskonar kræsingum. Þetta var á fyrstu árunum sem ég fór að venja komur mínar í Safamýrina. Á þeim árum voru þau hjónin Dúna og Steinar nýkomin úr ferð frá Ameríku og þar sem  Dúna hafði mikinn áhuga á matargerð kom hún heim með alls konar nýjungar frá útlandinu.


Að ferðast erlendis fannst þeim afar skemmtilegt og minntust þau oft á fyrstu ferðina sem þau fóru í, sem var með æskuvinunum Döddu og Axel til Bretlands.
Ameríkuferðir voru nokkrar, farnar bæði til að hitta skyldfólk og ekki síst vinnuferðirnar sem farnar  voru til að sérsauma mokkaflíkur á ameríska viðskiptavini. Í þessum ferðum myndaðist góður vinskapur á milli hjónanna og Landau sem seldi flíkurnar. Þegar Landau kom til landsins þá var alltaf efst á óskalistanum að fá í lambahrygg og púðursykurköku hjá Dúnu sem honum þótti algjört lostæti.

Þegar þær mæðgur Dúna og Ragna fóru í ferð Portúgal þá komu þær með ýmsar nýjungar þaðan í matargerð  og bræðurnir minnast þess enn að paprikuréttir voru í öll mál og  í öllum mögulegum og ómögulegum útfærslum.

Fyrirmyndarhúsmóðir var hún tengdamóðir mín og börnin hennar  minnast  þess  þegar þær vinkonurnar Erla brutu saman þvottinn með tilþrifum í Safamýrinni.  Þó að Dúna hafi verið heimavinnandi alla tíð þá voru börnin látinn taka þátt í öllum verkum á heimilinu. Dúna var jafnréttissinni  og hlífði strákunum ekkert við að taka þátt í heimilisstörfum .

Bræðurnir minnast  oft á skemmtilegu afmælisveislurnar sínar. Á þeim tíma voru mörg börn í hverri íbúð í stigaganginum í Safamýrinni og auðvitað voru allir boðnir. Dúna bakaði þvílíkar hnallþórur og allaf þurfti að prufa nýjar kökusortir.

Dúna og æskuvinkona hennar Stína hafa haldið vinskap alla tíð, börnin hennar sögðu að Dúna væri eins og móðursystir þeirra enda þau hjón aufúsu gestir í veislum fjölskyldunnar. Þær vinkonur voru miklar hannyrðakonur, völdu oft að prjóna eins peysur á barnabörnin og eru það þær fallegustu peysur sem ég hef séð og vöktu alls staðar athygli.

Tengdamamma skellti sér í jógatíma hjá Jógastöðinni Heilsubót og fyrr en varði var hún orðin leiðbeinandi. Seinna tók Steinar tengdapabbi að sér hádegistíma fyrir karlmenn. Þetta var góður  hópur  sem stóð vel saman og fór í ferðalög bæði hérlendis og  erlendis í jógaæfingabúðir með börnin með og voru þetta ferðir sem fjölskyldan minntist oft á.

Á föstudögum þegar foreldrarnir voru við jógaæfingar þá fengu systkinin í Safamýrinni að spreyta sig heima  í matargerð og þá voru gerðar ýmsar tilraunir og segja má að þetta hafi ýtt undir áhuga þeirra á matargerð.

Keppnisskap hafði Dúna mikið enda hafði hún keppt á árum áður í spretthlaupi. Tengdamamma átti til að taka spretti með strákunum sínum á þeirra yngri árum og framan af var það  Dúna sem kom fyrst í mark.

Þau hjón Dúna og Steinar byggðu sér sumarhús í Eilífsdal, fóru í sumarbústaðinn um hverja helgi til að dytta að og höfðu gaman af að gróðursetja og  það var mikill áhugi á skógrækt.  Það voru líka ófáar kartöflusortir sem voru gerðar tilraunir með.

Þau voru voru samrýmd systkinin frá Skuld og það var ekki í lognmolla þegar hópurinn hittist og ekki síst systurnar sem töluðu nánast daglega saman.

Það gat líka gustað í kringum Dúnu en það var fljótt að lygna. Dúnu var umhugað um allt og alla og mátti ekkert sem aumt sjá.

Barnabörnin voru henni ofarlega í huga og fengu þau sannarlega að njóta þess, þau koma nú til með að sakna ömmu sinnar.

Vestmanneyjar voru henni kærar og var það hátíðarstund að mæta í Eyjakaffið og hitta þar vini og kunningja.

Kvöldstundirnar í Safamýrinni hjá  Dúnu og Steinari með Duke  Benny og  Ellu ásamt góðu kvöldkaffi með heimabökuðu og góðu spjalli minnist ég með hlýju.

Takk fyrir allt.







Sigrún (Simo) tengdadóttir.