Guðrún Pálsdóttir fæddist á Siglufirði 28. október 1942. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi þann 16. október 2016.
Foreldrar Guðrúnar voru Ingibjörg Ingvarsdóttir, f. 4. október 1908, d. 10. október 1986, og Páll Guðmundsson, f. 17. nóvember 1904, d. 2. nóvember 1963.
Alsystkini Guðrúnar eru Guðmundur Skjöldur, f. 29. október 1943, Guðbjörg Hlíf, f. 9. nóvember 1944, Stanley Páll, f. 28. nóvember 1945, Ívar Þór, f. 27. desember 1947, d. 27. maí 1994, Edda Rut, f. 10. desember 1950, og Harpa, f. 20. janúar 1955. Fyrir átti Ingibjörg Heiðar Róbert Ástvaldsson, f.4. október 1936.
Guðrún giftist þann 25. nóvember 1978 eiginmanni sínum, Ásgeiri M. Jakobssyni, f. 16. ágúst 1954. Foreldrar hans eru Gyða Gísladóttir, f. 2. september 1924, og Jakob Sigurðsson, f. 6. ágúst 1923, d. 6. desember 1995. Börn Guðrúnar og Ásgeirs eru 1) Gyða Hrönn, f. 27. desember 1973, gift Ásgeiri Guðbjarti Pálssyni, f. 4. febrúar 1968. Börn þeirra eru Ásgeir Páll, f. 24. nóvember 1997, og Guðrún Björg, f. 17. febrúar 2006. 2) Jakob Ingi, f. 1. desember 1977. Sonur hans og Guðrúnar Theodóru Hrafnsdóttur er Grímur Ingi, f. 26. júní 2003. 3) Páll Daði, f. 8. ágúst 1983, unnusta hans er Ástdís Þorsteinsdóttir, f. 4. júlí 1984. Dóttir þeirra er Matthildur Gréta, f. 22. júlí 2014. Fyrir átti Guðrún Ingibjörgu Lilju Halldórsdóttur, f. 2. mars 1968, gift Herði Valssyni, f. 27. júlí 1966. Börn þeirra eru Jóhann Ingi, f. 29. október 1997, og Rebekka Rut, f. 29. ágúst 2005.
Guðrún fæddist og ólst upp á Siglufirði en fluttist ung að aldri með fjölskyldunni til Reykjavíkur. Guðrún var lærður danskennari og sótti sér iðulega auka menntun og þá oftast til Lundúna. Hún kenndi dans og þjálfaði sýningarhópa, við góðan orðstír, þjálfaði nema til danskennara og var auk þess prófdómari á danskeppnum allan sinn starfsferil. Guðrún var mikill áhugamaður um dansmennt og var m.a. í forsvari fyrir stofnun að Danskennarasambandi Íslands og var formaður þess um tíma. Henni var annt um starfskjör og réttindi danskennara, vildi veg og virðingu hennar sem mest.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hvernig tek ég mín næstu skref? Hvert fer ég? Hver heldur nú í höndina mína? Hvað á ég nú að gera þegar mamma mín og minn besti vinur hefur kvatt mig í síðasta sinn? Tómarúmið er mikið, skarðið er stórt og dagarnir lengi að líða. Nú veit ég ekki alveg hvað skal gera því ekki vorum við búnar að ræða næstu skref, við héldum öll að tíminn yrði lengri en eins og mamma minnti okkur svo oft á þá plana mennirnir en Guð ræður.

Margar minningar sækja á huga minn, við mamma brölluðum margt saman, minningar sem hjálpa mjög.  Heimili okkar var alltaf fallegt og fínt og góður vöfflu- eða súkkulaðikökuilmur fyllti oft loftið, hún var afskaplega myndarleg í sér. Mamma var með eindæmum glæsileg kona, mjög smekkleg, hafði auga fyrir fallegum hlutum og alltaf fín, hún var mjög skipulögð og vissi hvernig hlutirnir áttu að vera.

Eftir að ég varð fullorðin og eignaðist mitt eigið heimili og fjölskyldu þá urðum við mamma enn betri vinkonur. Enginn dagur leið án þess að heyra í mömmu og stundum oft á dag, við gerðum margt saman og vorum mjög líkar í okkur.  Ekki get ég nú sagt að ég hafi verið mjög dugleg til heimilisverka þegar ég bjó mér til heimili því mamma hafði alltaf hugsað svo vel um okkur en það reddaðist alltaf því fátt gerði ég án þess að fá leiðbeiningar frá henni. Þannig liðu árin og mamma í raun fjarstýrði mér og kenndi mér að elda og ekki síst baka því alltaf leitaði ég ráða hjá henni, ég gat lítið án hennar. Súkkulaðikakan mín var að verða eins og hennar og stundum betri, hún gaf mér þá einkunn að ég væri alveg að ná henni og það var nóg fyrir mig, ég var ánægð. Enga veislu gat ég skipulagt nema leita til hennar, hvort sem um var að ræða barnaafmæli nú eða brúðkaupið mitt þar sem hún tók allar ákvarðanir með mér í fjarveru tilvonandi eiginmanns, sjómenn geta ekki tekið þátt í öllu og þá reddar mamma hlutunum. Við gerðum margt tvær saman.  Mörg ferðalögin fórum við í, ég og mín litla fjölskylda, með mömmu og pabba, til Akureyrar, Spánar, fallega sumarbústaðinn þeirra og ekki síst í paradísina hennar mömmu í Orlando. Síðasta ferðalagið okkar var einmitt til Orlando nú byrjun sumars, mikið er það dýrmæt ferð, ekkert okkar grunaði að það væri hennar síðasta ferð þangað.  Í Orlando leið mömmu óskaplega vel, hitinn, fallega heimilið þeirra, staðurinn, pálmatrén og litirnir fóru einstaklega vel með mömmu, þarna var mín mær í sínu besta formi.  Hún var alltaf mikill ferðamaður og ferðaðist hún mikið með pabba, var mjög áhugasöm um önnur lönd og aðra siði. Þegar mamma veiktist fyrst fyrir 10 árum síðan þá fóru hún og pabbi í margar reisurnar, það var svo margt sem hún vildi sjá en festu sig svo í Orlando og fóru þá í margar siglingarnar um Karabíska hafið, það fannst henni alltaf jafn skemmtilegt, hún naut sín vel með sínum aðalferðafélaga honum pabba, þau þurftu ekki fleiri enda tveir helmingar af sama hjartanu.

Aldrei var mamma sjúklingur þó hún hafi farið í miklar aðgerðir fyrir 10 árum síðan þegar krabbamein lagði spor sín á hana, hún tókst á við það verkefni með aðdáun og reisn, kvartaði aldrei. En síðustu þrír mánuðir voru mömmu ekki auðveldir, mikið var á hana lagt þegar krabbamein bankaði aftur upp á og vildi ekki sleppa en alltaf var hún jákvæð og brosandi og bjó svo um fyrir okkur að hver dagur var fallegur og auðvelt að lifa hann með henni, einn dag í einu. Við nutum hvers dags, vonin var alltaf, töluðum mikið saman, plönuðum framtíðina og ferðalög en blessunin var alltaf á sjúkrahúsinu og fékk fáa frídaga. Hún var ótrúleg fyrirmynd, ótrúleg kona.

Nú þarf ég að læra að taka eitt skref í einu, einn dag í einu og treysta því að hún haldi áfram í hönd mína. Ég veit að ég þarf aðeins að halda um öxl mína, þar er hún alltaf þegar ég þarf á henni að halda, hún sagði mér að þar yrði hún, undir nafni, standandi í fæturna. Ég strýk þennan stað, sem hefur verið merktur, oft á dag. Einhvern veginn held ég áfram, ég lofaði mömmu að ég myndi passa elsku pabba og systkini mín, hún vissi alveg að ég myndi standa við það og þannig líður tíminn.  Einn daginn hittumst við aftur, þó ekki strax en hún sagðist myndi koma og sækja mig. Þangað til þá á ég minningarnar, myndirnar og óendanlega ást mína til mömmu.  Takk fyrir mig, takk fyrir allt og ALLT elsku mamma mín. Ég elska þig.

Gyða.