Afaterta með miklu kremi

Afatertan er klassísk og kremmikil.
Afatertan er klassísk og kremmikil. Eggert Jóhannesson

Þessi kremmikla og fallega súkkulaðikaka nefnist afaterta og kemur frá Guðna Hólm Stefánssyni bakarameistara í Kökuhorninu Kópavogi. Uppskriftin kemur frá ömmu hans, sem bakaði tertuna gjarna handa afa hans við mikinn fögnuð. Guðni bakar tertuna líka stundum með dökku kremi og kallar hana þá ömmutertu. Uppskriftin er í óhefðbundnum mælieiningum en það er vegna þess að Guðni bakar alltaf 23 stykki í einu en hér er búið að minnka uppskriftina niður í eina tveggja laga tertu.

Botnar

70 g sykur
65 g smjörlíki
50 g egg
1,5 g salt
2,2 g natron
2,2 g lyftiduft
26 g kakó
145 g hveiti
130 ml súrmjólk

Hrærið saman sykri, smjörlíki, salti og kakó. 
Eggjum er hellt rólega út í og blandað varlega saman.
Súrmjólkin fer því næst út í og er hrært saman. Varist að ofhræra.
Þurrefnin fara loks út og blandan er hrærð saman uns hún verður slétt og glansandi.

300 g af deigi fara í 18 cm form.
Botnarnir tveir eru svo bakaðir á 190 gráðum í sirka 15-18 mínútur eftir ofni eða þar til stinga má prjóni í tertuna og hann kemur þurr út.

Krem
45 g flórsykur
26 g íslenskt smjör
2 g heitt vatn
1 tsk. vanila
4 g kakó eða eftir smekk

Allt sett í hrærivel og hrært saman í létt krem.

Gott er að skafa úr hliðum þegar kremið er komið vel saman og hræra svo aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert