Airwaves bjór sem hentar vel til dagdrykkju

Bruggmeistari Bryggjunnar, Bergur Gunnarsson bruggar eins og enginn sé morgundagurinn.
Bruggmeistari Bryggjunnar, Bergur Gunnarsson bruggar eins og enginn sé morgundagurinn.

Bruggmeistari Bryggjunnar, Bergur Gunnarsson, hefur bruggað sérstakan Airwaves-bjór í tilefni hátíðarinnar sem hefst í vikunni. Bjórinn er af tegundinni Session IPA og nefnist Session IPAirwaves. Einnig verður sérblandaður kokkteill reiddur fram á barnum og Airwaves-matseðill settur í loftið, en Bryggjan er „off venue“ staður á Airwawes og býður upp á tónleika meðan á hátíðinni stendur. 

„Bryggjan Session IPAirwaves hentar einstaklega vel til dagdrykkju. Um er að ræða ríflega humlaðan session IPA, í kringum 4,6%. Session IPA er bjórstíll sem er alltaf fremur lágur í áfengisprósentu en næstum því með sama magni af humlum og í venjulegum IPA,“ segir Bergur Gunnarsson bruggmeistari, sem stendur í ströngu um þessar mundir, en von er á enn öðrum nýjum bjór frá Bryggjunni Brugghúsi á næstu dögum.

„Airwawes-bjórinn er bruggaður með höfrum, sem eykur munnfylli bjórsins, hann er humlaður með Columbus og Mosaic og þurrhumlaður með Citra, Mosaic og Centennial, sem gefur bjórnum ávaxta- og sítruskeim,“ segir Bergur ánægður með útkomuna og segir gott útlit fyrir dagdrykkju næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert