Markmiðið að koma heim með verðlaun

Viktor Örn Andrésson æfir fyrir Bocuse d´Or
Viktor Örn Andrésson æfir fyrir Bocuse d´Or mbl.is/Golli

Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari er staddur í Frakklandi þar sem hann undirbýr sig fyrir keppni í óopinberu heimsmeistaramóti einstaklinga í matreiðslu, Bocuse d'Or.

Keppnin er ein virtasta matreiðslukeppni heims og eftir tvö ár með forkeppnum og æfingum er stóra stundin runnin upp. Hráefnið er fyrirfram ákveðið en í fyrsta skipti frá upphafi þarf að matreiða vegan-rétt.

Bocuse d'Or-matreiðslukeppnin fer fram dagana 24.-25. janúar í Lyon. Viktor Örn Andrésson, matreiðslumaður Norðurlanda 2014, keppir fyrir hönd Íslands. Viktor ferðaðist til Lyon fyrir helgi ásamt þjálfara sínum Sigurði Helgasyni, meistarakokki. Hafa þeir verið við stífar æfingar síðustu mánuði að gera allt klárt fyrir keppnina. „Æfingarnar hafa gengið vel, við byrjuðum að æfa fyrir þessa keppni í september og núna síðustu daga hafa verið æfingar 6 daga vikunnar,“ segir Viktor.
Fegurð. Framsetning skiptir miklu máli og lítur plattinn vel út …
Fegurð. Framsetning skiptir miklu máli og lítur plattinn vel út hjá Viktori. Ljósmynd/Karl Petersson

Langur undirbúningur að baki

Það hefur hins vegar verið í nægu að snúast hjá Viktori fyrir þessa keppni en undirbúningur fyrir forkeppnir hófst fyrir rúmlega tveimur árum.

„Ferlið sjálft er mjög langt, það hófst í raun snemma 2015 þegar ég ákvað að taka þátt í þessari keppni og tók þá þátt í forkeppni heima á Íslandi.“ Þegar henni lauk þurfti Viktor að keppa í Bocuse d'Or Europe sem er forkeppni fyrir Evrópu en undirbúningur fyrir þá keppni hófst í janúar 2016 og fór keppnin fram í Búdapest. „Það var undirbúningur frá janúar og alveg út apríl á síðasta ári fyrir þá keppni en aðeins 11 Evrópuþjóðir komast áfram í lokakeppnina í Lyon.“ Viktor náði þar 5. sæti og tryggði sér farmiðann til Lyon. Hann fékk einnig verðlaun fyrir besta fiskréttinn á Bocuse d'Or Europe. Viktor segist vera tilbúinn í keppnina og er sáttur við undirbúninginn sem hefur átt sér stað á síðustu mánuðum. „Við höfum verið að æfa núna fyrir lokakeppnina síðan í september og tókum t.d. 14 tímaæfingar heima áður en við fórum út, sem gengu vel.“

Ein virtasta matreiðslukeppnin

Bocuse d'Or er ein allra virtasta matreiðslukeppni í heimi en hún fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. 24 þjóðir komast að hverju sinni og eru haldnar forkeppnir í hverri heimsálfu fyrir sig. Keppendur fá 5 klukkutíma og 35 mínútur til að matreiða réttina sína. Þá þurfa þeir að matreiða á 14 diska fyrir dómarana. Aðalrétturinn er alltaf framreiddur á sérstöku fati en Viktor mun reiða mat sinn fram á fati sem kostar fleiri hundruð þúsund krónur.

Vegan-forréttur

Allir keppendur þurfa að matreiða einn aðalrétt og einn forrétt. Þar sem keppnin fagnar 30 ára afmæli var ákveðið að breyta til og verður forrétturinn í ár vegan-réttur (grænmetisréttur án eggja og mjólkurvara). Hráefnið í vegan-réttinn er fyrirfram ákveðið en það var leyfilegt að taka með sér tvær grænmetistegundir að heiman. Aðalrétturinn er Bresse-kjúklingur ásamt skelfiski. „Þetta er sem sagt afbrigði af klassískum frönskum rétti sem er Bresse-kjúklingur og ferskvatnshumar. Það er hins vegar leyfilegt í keppninni að velja úr nokkrum tegundum af skelfiski.“ Mun aðalrétturinn líka vera í tengslum við 30 ára afmæli keppninnar en Bresse-kjúklingur með skelfiski var aðalrétturinn í fyrstu Bocuse d'Or-keppninni. Bresse-kjúklingur kemur úr samnefndu héraði og er einstaklega stór kjúklingur, oft kallaður konungur kjúklinganna.

Stefna á sæti

Hópurinn sem er úti hefur dvalið síðustu daga rétt fyrir utan Lyon. Hefur helgin farið í að undirbúa matinn sem verður matreiddur, skipulag á tækjum og búnaður sem verður með inni í eldhúsinu. Aðpurðir hvert sé markmið þeirra í keppninni eru Viktor og Þráinn Freyr, fjölmiðlafulltrúi hans, sammála um að það sé skýrt. „Markmiðið er skýrt, það er að ná a.m.k. 3. sæti og koma heim með verðlaun,“ segir Þráinn Freyr, sem einnig hefur tekið þátt í Bocuse d'Or fyrir Íslands hönd.

Íslendingar í Bocuse d'Or

Íslendingar hafa tekið þátt í Bocuse d'Or síðan 1999. Þá fór Sturla Birgisson sem frumkvöðull út fyrir Íslands hönd og keppti.

Hann náði á sínum tíma glæsilegum árangri og landaði 5. sætinu. Sturla hefur síðan þá miðlað reynslu sinni áfram til næstu keppenda með góðum árangri. Ísland er í hópi 6 bestu þjóða í heiminum þegar það kemur að matreiðslu í keppninni og hefur staðið sig gríðarlega vel. Ísland hefur alltaf endað með tíu efstu þjóðum í keppninni síðan það tók fyrst þátt. Besti árangur Íslands náðist 2001 þegar Hákon Már Örvarsson lenti í þriðja sæti.

Girnilegt. Stífar æfingar hafa gengið vel og líta réttirnir einstaklega …
Girnilegt. Stífar æfingar hafa gengið vel og líta réttirnir einstaklega vel út. Ljósmynd/Karl Peterson
Hér má sjá Viktor einbeittan á lokaæfingunni hér heima á …
Hér má sjá Viktor einbeittan á lokaæfingunni hér heima á Íslandi áður en haldið var til Lyon. Ljósmynd/Karl Peterson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert