Karabískar kósý-kræsingar að hætti Anítu

Verkleg í Víkinni Aníta kokkur er nýkomin heim frá Bahama-eyjum …
Verkleg í Víkinni Aníta kokkur er nýkomin heim frá Bahama-eyjum þar sem hún sankaði að sér uppskriftum og aðferðum. Kristinn Magnússon

Aníta Ösp Ingólfsdóttir veit fátt skemmtilegra en að gera framandlegar tilraunir með mat. Eitt af hennar uppáhalds er að blanda saman svínakjöti og hörpuskel en fiskur í hennar meðförum þykir með því betra sem boðið hefur verið upp á hér á landi. Hún er mikið á faraldsfæti og er nýkomin heim eftir dvöl suður í Karíbahafi þar sem ævintýrin létu ekki á sér standa.

Aníta er Sauðkrækingur í báða leggi og hefur gert garðinn frægan hér á landi sem erlendis. Hún var yfirkokkur á Borginni en heldur nú um stjórnartaumana í Víkinni – Sjóminjasafni en þar stendur til að opna glæsilegt nýtt eldhús með vorinu. Þar fyrir utan elskar Aníta að ferðast og hefur unnið á yfir tuttugu heimsfrægum stöðum í Bandaríkjunum en hún segist vera mikill aðdáandi matarsenunnar í Bandaríkjunum. Nú síðast dvaldi hún á Bahama-eyjum þar sem hún upplifði mikil ævintýri en hún segir að það hafi verið frábært. Bæði hvað varðar mat og svo hafi hún smellpassað inn í kúltúrinn þar syðra.

„Það var bara eitthvað, get svo sem ekki lýst því en ég fann mig rosalega vel þarna úti og fannst þetta eitt ævintýri út í gegn. Ég var á staðnum hans Völla Snæs þarna úti sem heitir Sabor og er á einu besta hótelinu þarna úti. Þetta er algjör paradís, það verður ekki annað sagt,“ segir Aníta sem var í öruggum höndum Emmanuels Smith sem sér um rekstur staðarins og er mikill Íslandsvinur. „Við hittumst fyrst hér á landi og hann hefur sent fólk frá sér hingað til okkar í þjálfun. Ég brann í skinninu að prófa þetta og ég verð bara að segja að þetta var frábært.“

Var virkilega smeyk

Aníta lenti í ýmsum ævintýrum svo að ekki sé meira sagt og sjálfsagt var hápunkturinn fellibylurinn Matthew. „Það var svakalegt. Eyjan fór bara í rúst. Ég get ekkert orðað það neitt örðuvísi. Maður átti bara fótum sínum fjör að launa, eða þannig. Ég var á hótelinu í nokkuð góðum höndum en ég viðurkenni að það komu stundir þar sem ég var virkilega smeyk. Eyjan fór mjög illa út úr þessu og maður var í áfalli að ganga um og skoða skemmdirnar með eigin augum. Tré og byggingar horfnar, allt brotið og bramlað og margt fólk sem missti heimili sín. Við vorum eini veitingastaðurinn sem hægt var að opna nánast strax eftir fellibylinn. Það var því brjálað að gera en hótelið fylltist af erlendu fólki sem kom til að laga til á eynni. Þá ekki verkamenn heldur sérfræðingar af ýmsum toga sem komu alls staðar að úr heiminum.“

Ekki beint umhverfisvænir

Aðspurð segist Aníta hafa verið hrifin af bahamískri matargerð þótt hún hafi verið fullmikið djúpsteikt fyrir hennar smekk. „Það er bókstaflega allt djúpsteikt sem er alveg fínt en því má redda með ferskum fiski því fiskurinn þarna er æðislegur og ætli það hafi ekki verið mesti skólinn fyrir mig. Allar þessar nýju fisktegundir sem ég hafði aldrei unnið með áður. Svo er það uppáhaldið mitt: conch-fiskur. Það er fiskur úr stórri og óskaplega fallegri skel sem þeir ofveiða grimmilega og nota með öllum mat. Það verður seint sagt um Bahama-búa, þrátt fyrir að þeir séu frábærir, að þeir séu beint framarlega í umhverfismálum og ofveiði á einni sjávartegund er ekki mikið stórmál í þeirra augum. En conch-fiskurinn er góður og ég ákvað einmitt að gera smátilraun með hann hér og bjóða upp á tilbrigði við þjóðarrétt þeirra Bahama-búa sem er conch-fritters sem eru eiginlega bara djúpsteiktar conch-bollur. Ég setti þorsk í staðinn og þetta smakkaðist hrikalega vel, segir Aníta og gefur blaðamanni og ljósmyndara að smakka. Við tökum heilshugar undir það. Alvöru huggunarmatur sem veitir vellíðan. Úti er hálfgerður suddi og þetta er allt svo afskaplega viðeigandi. Allt öðruvísi en á Bahama-eyjum svo við látum okkur bara dreyma.

Djúpsteiktir kjúklingavængir með mangó og ananas sósu sem minan á …
Djúpsteiktir kjúklingavængir með mangó og ananas sósu sem minan á suðrænar strendur. Kristinn Magnússon
Djúpsteiktir kjúklingavængir
með mangó og ananas sósu
2 pakkar kjúklingavængir

Marinering
1½ bolli súrmjólk
1 msk. hvítlaukspipar
½ tsk. laukduft
½ msk. salt
¼ tsk. paprikuduft
¼ tsk. cayenne-pipar

Kryddhjúpur
2 bollar hveiti
1 ½ msk. hvítlaukspipar
2 msk. salt
1 tsk. laukduft
½ tsk. paprika
½ tsk. fennel duft

Sósan
2 litlar dósir ananas mauk (safinn líka)
350 g frosið mangó
80 g smjör
180 g púðursykur
4 meðalstór hvítlauksrif
½ tsk. chili flögur
½ tsk. salt
1 msk. eplaedik

Vængirnir
Öllum innihaldsefnum í marineringunni er blandað saman og hellt yfir kjúklingavængina, látið standa í kæli yfir nótt.Vængjunum er síðan velt upp úr hveitinu og þeir djúpsteiktir á 180°C. Gott er að taka þá út úr kælinum 1-1½ klst. áður en á að steikja þá til að fá jafnari steikingu.

Sósan
Smjörið og púðursykurinn er brætt saman á pönnu, þá er ananasnum, mangóinu, gróft skornum hvítlauk, edikinu og chili-flögunum bætt út í, látið malla á lágum hita í 30 mínútur. Þá sósan sett í blender og maukuð, smökkuð til með salti og jafnvel meiri cayenne-pipar. Borðuð með eða hellt yfir steikta vængina.
„Wannabe conch fritters“ djúpsteiktar þorskbollur með bragðmikilli sósu.
„Wannabe conch fritters“ djúpsteiktar þorskbollur með bragðmikilli sósu. Kristinn Magnússon

„Wannabe conch fritters“ djúpsteiktar þorskbollur

300 g þorskur
1 bolli hveiti
1 tsk. lyftiduft
½-1 bolli mjólk
1 stk. egg
1 lítill laukur
½ stk. græn paprika
½ stk. rauð paprika
2 stk. hvítlauksgeiri
2 meðal greinar timian
½ stk. sítróna – börkur fínt rifinn
2 tsk. salt
1 tsk. pipar
1 tsk. cayenne-pipar 

Þorskur, laukur, paprikur og hvítlaukur allt skorið í bita og sett í matvinnsluvél ásamt timian laufum, passa þarf að mauka blönduna ekki of mikið, gott er að hafa ennþá smá bit í fiskinum. 


Í annarri skál er hveiti, lyftidufti, salt, pipar, cayenne og sítrónuberki blandað saman, mjólkinni og egginu bætt út í, hrært þangað til allt er vel blandað saman, þá er fiskblöndunni blandað saman. Blandan á að vera frekar þykk.Þetta er síðan steikt í 185°C heitri olíu, gott er að steikja eina bollu fyrst, smakka og geta þá bætt við salti, pipar og cayenne eftir þörfum.

Best er að nota ískúluskeið til að steikja bollurnar og dýfa henni í heita olíuna áður en dýft er í deigið svo það festist ekki við skeiðina. Eldað þar til gullinbrúnt.

Bahama mama sauce
5 msk. mæjónes
4 msk. tómatsósa
2 msk. lime-safi
1 tsk. chili-sósa – t.d. sriracha-sósa
Salt og pipar eftir smekkÖllu hrært saman og borðað með bollunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert