Lekker linsubaunasúpa Svövu

Holl og góð að hætti Svövu.
Holl og góð að hætti Svövu. mbl.is/Ljúfmeti og lekkerheit
„Eftir veisluhöld desembermánaðar og notalega byrjun á árinu er kannski kominn tími á aðeins hollari matarvenjur. Ég er vön að borða ágætlega yfir daginn og er oftast með nesti með mér í vinnunni. Það hentar mér best, bæði virðist ég ekki fá leið á að borða það sama dag eftir dag og síðan þykir mér þægilegt að þurfa ekki að fara út í hádeginu að kaupa mér mat. Sparar bæði tíma og pening,“ segir Svava Gunnarsdóttir á Ljúfmeti og lekkerheit um þessa girnilegu súpu.
Hún segir nestið sitt sjaldan hafa verið eitthvað til að hrópa húrra fyrir en stundum eldi hún fullan pott af súpu eða geri stórt eldfast mót með grænmetisfylltri eggjaköku, sem hún setji í nestisbox og frysti.
„Ég hef stundum gert þessa frönsku linsubaunasúpu (hún er mjög góð!) en prófaði nýja uppskrift fyrir nokkru sem ég skildi eftir á hellunni á meðan ég skaust aðeins frá og þegar ég kom aftur heim þá var hún orðin að hálfgerðum pottrétti. Það kom þó ekki að sök, súpan er bæði matarmikil og fullkomin í nestisboxið.“

Linsubaunasúpa

  • 2 tsk. ólífuolía til að steikja í
  • 1 stór laukur, hakkaður
  • 1 dl gulrætur, hakkaðar
  • 1 dl sellerí, hakkað
  • 2 tsk. salt
  • 3 dl linsubaunir
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 7 – 8 dl vatn
  • 1 – 2 teningar grænmetiskraftur
  • 1 stórt handfylli ferskt kóriander
  • 1/2 tsk. cumin (ath. ekki sama og kúmen)
  • 1/2 tsk. svartur pipar

Léttsteikið grænmetið í rúmgóðum potti. Bætið tómötum og kryddum saman við og steikið aðeins saman. Bætið vatni, grænmetiskrafti og linsubaunum í pottinn og látið sjóða þar til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar. Smakkið til!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert