Ljúffengur lax með þremur sósum

Laxinn undirbúinn fyrir grillun.
Laxinn undirbúinn fyrir grillun. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Lax er herramannsmatur og ekki spillir fyrir ef hann er villtur. Hér er einstaklega skemmtileg uppskrift að laxi sem á endanum var borinn fram í hrísgrjónapappír að austurlenskum hætti.

Það er Ragnar Freyr Ingvarsson – betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu – sem á heiðurinn af þessari uppskrift sem er alveg hreint upp á tíu.

Grænmetið komið á hrísgrjónapappírinn.
Grænmetið komið á hrísgrjónapappírinn. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrenns konar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti

Það er ekki leiðinlegt þegar maður fær upphringingu á föstudegi þar sem stangveiðimaður þarf að koma nýveiddum laxi í hús. Slík skilaboð fékk ég á föstudaginn síðastliðinn frá Hjördísi Pétursdóttur en hún kom færandi hendi með þennan fallega spriklandi ferska lax.

Og auðvitað varð að elda hann hratt og örugglega. Og mér datt ekkert annað í hug en að gera það á eins ferskan hátt og mögulega.

Laxinn

  • 1 ferskur villtur íslenskur lax (auðvitað má nota eldislax)
  • 1 sítróna
  • 1 rauður chili
  • 2 vorlaukar
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 7 cm engifer
  • handfylli af ferskum íslenskum kryddjurtum
  • 16 blöð af hrísgrjónapappír


Grænmetið

  • kínakál
  • papríkur í mörgum litum
  • baunaspírur
  • vorlaukur
  • radísur
  • gulrætur
  • kastaníuhnetur
  • blandað laufsalat
  • ferskt kóríander
  • ferskt basil


Meðlæti

  • 3 pak choy
  • 1 msk. soyasósa
  • 1 msk. jómfrúarolía
  • 1/2 rauður chilipipar
  • salt og pipar


Fyrir sósurnar

Númer eitt:

  • 4 hlutar majónes
  • 1 hluti rauð sriracha-sósa


Númer tvö:

  • 3 hlutar jómfrúarolía
  • 1 hluti soyasósa
  • 1 tsk. smátt saxaður hvítlaukur
  • 1 tsk. smátt saxaður engifer
  • 1/2 rauður chili-pipar – smátt saxaður
  • 1/2 tsk. ristuð sesamfræ
  • 1 tsk. hunang
  • safi úr hálfri sítrónu
  • salt og pipar


Númer þrjú:

  • 4 hlutar majónes
  • 1 hluti græn sriracha-sósa
  • 1 msk. ferskur graslaukur, smátt skorinn

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera sítrónurnar, chili-piparinn, vorlaukinn, engiferinn, kryddjurtirnar og hvítlaukinn gróflega niður og komið fyrir inni í kviðarholi fisksins.
  2. Pakkið svo laxinum vandlega inn í álpappír, líklega er best að hafa hann í tvöföldu lagi af pappír, þannig sleppur enginn vökvi frá fiskinum og hann sýður í eigin safa. 
  3. Útbúið sósurnar. Það er nauðaeinfalt. Bara að blanda hráefnunum saman í skálar og tylla á stórt fat.
  4. Sneiðið svo grænmetið smátt og raðið því í kringum sósuskálarnar.
  5. Setjið laxinn á blússheitt grillið í 35 mínútur eða svo. Það er góð hugmynd að snúa honum einu sinni á meðan eldun stendur þannig að hann eldist jafnt í gegn.
  6. Pak choy-ið er í raun bara kínakálsafbrigði. Það er skorið niður í helminga og öllu nema chili sáldrað yfir. Það er svo grillað á háum hita þangað til að blöðin visna og grænmetið tekur á sig lit. Þegar það er tilbúið er smátt skornum chili dreift jafnt yfir. 
  7. Ég hafði keypt hrísgrjónapappír í Víetnam market á Suðurlandsveginum. Það þarf ekkert annað en að væta hann í heitu vatni og láta svo kólna á diski. 
  8. Svo var bara að raða hráefninu á hrísgrjónapappírinn og vefja upp og taka svo stórann bita. Og njóta. Það er nú aðalatriðið. 
Laxinn tilbúinn.
Laxinn tilbúinn. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Pok choy-ið grillað og fínt.
Pok choy-ið grillað og fínt. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Tilbúinn á grillið.
Tilbúinn á grillið. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert