Vinsælustu kjötbretti landsins eru íslensk hönnun

Handgerðu brettin hans Kristinsson hafa rokið út fyrir jólin - …
Handgerðu brettin hans Kristinsson hafa rokið út fyrir jólin - enda er handbragðið slíkt að ekki er hægt að kaupa það í hverri verslun. mbl.is/Kristinsson

Í glæstu og hlýlegu húsi við Stamphólsveg í Grindavík er handverksfyrirtækið Kristinsson – handmade. Það er hér sem fallega íslenska hönnun er að finna undir leiðsögn Vignis Kristinssonar.

Vignir hefur haft unun af því að skapa eitthvað lítið sem stórt frá því hann man eftir sér. Hann segir nafnið „KRISTINSSON“ vera eins íslenskt eins og verkin hans því Vignir handgerir hvern og einn hlut af mikilli alúð – hér er um sannan handverksmann að ræða og þeir finnast ekki á hverju horni bæjarins í dag.

Vignir rekur vinnustofu og verslun í einu og sama húsinu ásamt eiginkonu sinni Ólöfu Kristínu Jensdóttur.

Húsið er í anda gömlu pakkhúsanna og er hugmyndin að útliti hússins sótt í fallegu húsin á Hofsósi. „Til þess að fá þessa lóð þurfti húsið að vera á tveimur hæðum. Í tvö og hálft ár höfum við kappkostað að klára það og það stefnir í að það verði alveg tilbúið í vor,“ segir Vignir, sem hefur lagt mikla vinnu í smíðina, en þess má geta að gluggakarmarnir eru til að mynda handbragð hans. Á neðri hæð hússins eru verkstæði og verslun en á efri hæðinni stendur til að vera með skammtímaleigu fyrir ferðamenn.

Hreindýrin hans Vignis hafa notið mikilla vinsælda hjá landanum í gegnum tíðina, en það eru ekki bara hreindýr sem koma af smíðaborðinu hans Vignis, þar sem við sjáum hesta, tré, köngla, uglur, hvalsporða – ásamt splunkunýjum viðarbrettum sem rokið hafa út fyrir jólin, og þá sérstaklega kjötbrettin undir jólasteikurnar. Brettin koma í ýmsum stærðum og gerðum – hvert öðru fallegra. Eins eru nokkrir nýir kertastjakar frá Kristinsson, sem eru skemmtileg viðbót í vöruúrvalið.

Til hvers hlakkar þú mest á jólunum? Ég hlakka mest til að hitta fjölskylduna mína  hlusta á góða tónlist, borða minn hefðbundna jólamat og slaka á.

Hvað verður í jólamatinn hjá ykkur fjölskyldunni í ár? Breytið þið stundum til eða haldið þið fast í hefðir? Við erum alltaf með hamborgarhrygg á aðfangadag og hangikjöt á jóladag  að ógleymdum hangikjötstartalettum sem ég hlakka alltaf mest til að fá mér. Á áramótunum höfum við haft fullt af smáréttum og roastbeef með heimalöguðu remúlaði. Fyrir sirka tíu árum spurði ég krakkana hvort við ættum ekki að breyta til, þá kom einum rómi „nei, við viljum fá okkar hrygg og eplasalat“. Og þar með var það ákveðið.

Hvað er uppáhaldsjólaskrautið þitt? Jólatréið er mitt uppáhalds jólaskraut, sem hefur verið eins í 40 ár  allt silfrað.

Hvað er á óskalistanum fyrir þessi jólin – svona ef jólasveinninn er að fylgjast með hérna á vefnum? Góður rakspíri drepur engan.

Verður eitthvað spennandi á döfinni hjá Kristinsson á komandi ári? Það væri gaman að fara út í stærri hluti af ýmsum toga.

Nýr kertastjaki frá Kristinsson - minnir sannarlega á gamla tíma.
Nýr kertastjaki frá Kristinsson - minnir sannarlega á gamla tíma. mbl.is/Kristinsson
Flestir þekkja Kristinsson einna helst af hreindýrunum hans sem hafa …
Flestir þekkja Kristinsson einna helst af hreindýrunum hans sem hafa verið vinsæl í áraraðir. mbl.is/Kristinsson
Brettin fást í ýmsum stærðum og gerðum.
Brettin fást í ýmsum stærðum og gerðum. mbl.is/Kristinsson
mbl.is/Kristinsson
Geggjaður taco bakki, smíðaður úr viði.
Geggjaður taco bakki, smíðaður úr viði. mbl.is/Kristinsson
Kristinsson-handmade er staðsettur við Stamphólsveg í Grindavík.
Kristinsson-handmade er staðsettur við Stamphólsveg í Grindavík. mbl.is/
Vignir Kristinsson er handverksmaður af guðs náð og vandar vel …
Vignir Kristinsson er handverksmaður af guðs náð og vandar vel til verka í smíðum sínum. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert