Skrefin upp í ræðustól þyngri eftir saltkjötsát

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar er skemmtilegri en flestir og …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar er skemmtilegri en flestir og hrókur alls fagnaðar. Hún er á því að skrefin í ræðustól muni reynast þyngri eftir saltkjötsát á sprengidag. Samsett mynd

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir þingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður er skemmtilegri en flestir og hrókur alls fagnaðar. Hún nýtir hvert tækifæri til að gera dagana skemmtilegri. Nú er fram undan bolludagur, sprengidagur og öskudagur þá er lag að spyrja Þorbjörgu hvað hún gerir í tilefni þessa.

„Þessir dagar eru skemmtilegir og allt að því nauðsynlegir fyrir fólkið yfir veturinn þegar snjór og myrkur eiga í óþarflega nánu sambandi. Við eigum að taka þessum rammíslensku siðum fagnandi,“ segir Þorbjörg og brosir.

Opnuðu bolluhátíðina fyrir helgi
Heldur þú upp á bolludaginn?
„Ég hóf leika strax á föstudag. Þá opnuðum við þessa hátíð. Veit ekki hvort ég gangi svo langt að segja bolludaginn mína uppáhaldshátíð, en ég sé bara enga galla á degi sem gengur út á bollur með rjóma.“

Hvernig viltu hafa bolluna þína?
„Ég vil hafa hana lausa við stæla. Vatnsdeigsbollu með rjóma og berjasultu.

Bakar þú bollurnar þínar sjálf?

Það er allur gangur á því. Baka ekki í ár en hef staðið mig þeim mun betur í að styrkja Mosfellsbakarí í kaupum á bollum.“

Eldar þú fiskibollur eða kjötbollur í matinn á bolludaginn?

„Gjarnan fiskibollur. Og hafi ég ekki tíma til að elda þær þá má treysta því að Fiskikóngurinn eigi góðar bollur. Mikill lúxus að vera með þessa frábæru fiskbúð í hverfinu.“

Heldur þú upp á sprengidaginn og eldar baunasúpu og sýður saltkjöt?

„Það verður saltkjöt á borðum í mötuneyti þingsins. Eru það ekki algjör landráð að sleppa saltkjötinu þennan dag? Skrefin upp í ræðustól eftir saltkjöt eru að vísu þyngri en venjulega, líkur á málþófi í þingsal eru algjörlega hverfandi á sprengidag,“ segir Þorbjörg og hlær.

Syngur alls ekki við matarborðið
Syngið þið lagið saltkjöt og baunir -túkall við matarborðið?

„Bara alls ekki.“

Hvað með öskudaginn, hvað gerir þú þá?
„Yngsta dóttir mín er gríðarlega spennt fyrir öskudeginum og hefur staðið í ströngum undirbúningi með vinkonum sínum fyrir þennan dag. Það er bæði sætt og skemmtilegt að sjá hvað þessi dagur gleður krakkana mikið.“

Hengir þú ennþá öskupoka á einhvern óafvitandi eða ferð og sníkir sælgæti, gott í gogginn?

„Sem krakki gerði ég þetta. Sem mamma hef ég aðeins sætt gagnrýni fyrir liðlegheit mín við að borða nammið sem skilar sér heim. En ég neita að láta nammið skemmast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert