Ísrael tilbúið að gefa verulega eftir gagnvart Sýrlandi

Ehud Olmert.
Ehud Olmert. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að Ísraelsmenn væru reiðubúnir til að gefa verulega eftir til að tryggja friðarsamninga við Sýrlendinga. Fyrr í dag tilkynntu löndin tvö, að þau ættu í friðarviðræðum fyrir milligöngu Tyrkja.

Olmert gaf þessa yfirlýsingu á fundi í Tel Aviv í dag. Hann upplýsti ekki í hverju þessar tilslakanir felist en fagnaði því, að á ný væri verið að ræða um frið milli ríkjanna eftir átta ára hlé „og Ísraelsmenn og Sýrlendingar eru að tala saman í stað þess að skjóta hvorir á aðra."

Sýrlendingar hafa sett það skilyrði fyrir friðarsamningum við Ísraelsmenn, að Ísrael skili Gólanhæðum, sem herteknar voru í sex daga stríðinu svonefnda árið 1967.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert