Leit haldið áfram á Atlantshafi

Herbátar frá Brasilíu við brakið úr farþegaflugvélinni.
Herbátar frá Brasilíu við brakið úr farþegaflugvélinni. Reuters

Leit að braki úr Airbus A330-200 flugvél Air France er haldið áfram á Atlantshafi og eru notuð skip og flugvélar. Tvö lík fundust í sjónum í gær og brak úr flugvélinni, sem fórst á mánudagsmorgun.

Að sögn talsmanns brasilíska flughersins hafa fundist flugvélarsæti, hlutar af vængjum og ýmsir aðrir hlutar úr vélinni. Þá fannst einnig skjalataska úr leðri og í henni var flugmiði frá Air France, sem tilheyrði farþega í vélinni. Þá fannst einnig bakpoki með tölvu og bólusetningarskírteini. 

Líkin og brakið voru flutt til brasilísku eyjarinnar Fernando de Noronha þar sem réttarmeinafræðingar munu hefja rannsókn. Líkin verða síðan flutt til borgarinnar Recife á norðausturströnd Brasilíu. Flugvélahlutarnir verða einnig fluttir þangað þar sem franskir sérfræðingar munu taka við rannsókninni.

Ættingjar farþega í flugvélinni hafa látið stjórnvöldum í té DNA sýni svo hægt verði að bera kennsl á lík, sem kunna að finnast.   

Hlutar úr farþegaflugvélinni á floti í sjónum.
Hlutar úr farþegaflugvélinni á floti í sjónum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert