Buxnakona laus úr fangelsi

Lubna Hussein kemur út úr dómhúsinu í Khartoum í gær …
Lubna Hussein kemur út úr dómhúsinu í Khartoum í gær - klædd buxum. Reuters

Blaðamannafélag Súdans segir, að blaðakonunni Lubna Ahmed Hussein hafi verið sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið þar í tæpan sólarhring. Hussein var í gær dæmd til að greiða sekt fyrir að klæðast buxum á almannafæri en neitaði að borga og var gert að afplána mánaðar fangelsi.

Blaðamannafélagið segist hafa greitt sektina, sem nam jafnvirði 25 þúsund krónum. Hussein hefur nú verið sleppt úr kvennafangelsi í Omdurman.

Hussein átti yfir höfði sér 40 vandarhögga refsingu fyrir ósiðlega framkomu á almannafæri en hún var handtekin ásamt 12 öðrum buxnaklæddum konum í veitingahúsi í Khartoum í sumar. Samkvæmt súdönskum lögum varðar það allt að 40 vandarhögga refsingu ef konur klæðast buxum, sem sýna of mikið af vexti þeirra. 

Tíu af konunum voru dæmdar til að þola 10 vandarhögg og var dómnum framfylgt strax. Hussein fékk samskonar dóm en áfrýjaði honum og hóf jafnframt opinbera herferð fyrir því að fá lögunum breytt. 

Lubna Ahmed Hussein.
Lubna Ahmed Hussein.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert