Hundar fóðraðir á líkamsleifum ástkonu

Bruno Fernandes (með hvíta derhúfu) sést hér við lögreglustöð í …
Bruno Fernandes (með hvíta derhúfu) sést hér við lögreglustöð í Rio de Janeiro. Reuters

Brasilíska lögreglan segir að fyrrverandi ástkona knattspyrnustjörnunnar Bruno Fernandes, sem hefur verið saknað, hafi verið kyrkt og að hundar hafi verið fóðraðir á líki hennar.

Fernandes er markvörður knattspyrnuliðsins Flamenco. Hann gaf sig fram við lögreglu eftir að gefin var út handtökutilskipun á hendur honum. Fyrrverandi ástkona hans, Eliza Samudio, var 25 ára. Hún hvarf fyrir um mánuði.

Knattspyrnumaðurinn hefur neitað sök og segist vera með hreina samvisku, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins. Hann er einnig 25 ára gamall.

Lögreglan segir að ungur frændi Fernandes hafi við skýrslutöku sagt að markvörðurinn hafi átt þátt í því að ræna Samudio og myrða hana. 

Samudio á að hafa sagt að Fernandes, sem er kvæntur annarri konu, væri faðir barnsins hennar.

Lögreglan segir að ráðist hafi verið á Samudio á hóteli í Rio de Janeiro daginn sem hún hvarf. Hún hafi svo verið kyrkt í borginni Belo Horizonte. Líkið hafi verið bútað niður og hundar fóðraðir á hluta þess á meðan restin hafi verið grafin undir steinsteypu.

Lögreglan hefur ekki fundið líkamsleifarnar, en segist hins vegar hafa sannað það að hún hafi verið myrt með fyrrgreindum hætti.

Markvörðurinn hefur átt velgengni að fagna með Flamenco.
Markvörðurinn hefur átt velgengni að fagna með Flamenco. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert