Obama frystir laun

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að laun alríkisstarfsmanna yrðu fryst í tvö ár og varaði jafnframt bandarískan almenning við því að þetta væri aðeins fyrst af mörgum erfiðum ákvörðunum sem taka þyrfti til að draga úr vaxandi fjárlagahalla ríkisins.

„Hinn grimmi sannleikur er sá að miklar fórnir eru nauðsynlegar til þess að hafa hemil á hallanum og starfsmenn alríkisstjórnarinnar verða að færa hluta þeirra fórna,“ sagði forsetinn.

Frystingin nær til allra almennra starfsmanna alríkisstjórnarinnar, m.a. þeirra sem vinna fyrir varnarmálaráðuneytið en hefði hins vegar ekki áhrif á starfsfólk hersins. Búist er við að frystingin spari yfir fimm milljarða dollara á þessum tveimur árum, 28 milljarða yfir næstu fimm ár og meira en 60 milljarða á næstu tíu árum að sögn embættismanna Hvíta hússins.

Sá sparnaður sem næst fram með frystingunni væri þó aðeins dropi í haf fjárlagahallans sem nemur meira en billjón dollara. Aðgerðunum er ætlað að friða kjósendur sem sýndu reiði sína vegna útgjalda ríkisins í þingkosningum í byrjun mánaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert