Yfir 60 dánir vegna ebóla-veirunnar

61 hefur látist af völdum ebóla-veirunnar í Gíneu síðan hún greindist þar fyrst í janúar. 109 tilfelli hafa verið staðfest með greiningu. Veiran hefur einnig borist til nágrannaríkisins Líberíu, þar sem 6 smit eru staðfest en 27 til viðbótar auk 13 dauðsfalla eru til rannsóknar til að skera úr um hvort þar sé ebóla á ferðinni.

Engin bólusetning eða lækning er til við ebólu. Veiran smitast auðveldlega milli manna með líkamsvessum eða blóði og eina leiðin til að stöðva hana af er að einangra hina smituðu algjörlega í sótthreinsuðu umhverfi og setja alla þá sem umgengust þá í sóttkví.

Í Gíneu hafa 24 heilbrigðisstarfsmenn smitast af ebólu-veirunni síðan hún kom upp og þar hafa 13 látist.

Samkvæmt rannsókn sem birtist í New England Journal of Medicine fyrr í vikunni orsakast farsóttinn sem nú gengur um Gíneu af nýrri gerð ebóla-vírussins sem hugsanlega hafi borist í menn með blóði ávaxtaleðurblaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert