Heiðruðu minningu helfararhetju

Sænski mannivinurinn Raoul Wallenberg, sem bjargaði tugþúsundum ungverska gyðinga frá helförinni áður en hann hvarf sjálfur sporlaust, var í gærkvöld heiðraður með sérstökum minningarpening Bandaríkjaþings, við hátíðlega athöfn í þinghúsinu í Washington.

Wallenberg var gerður að heiðursborgara Bandaríkjanna árið 1981 og var á þeim tíma annar maðurinn á eftir Winston Churchill til að hljóta slíkan heiður. Þá má í þinghúsinu má finna brjóstmynd af honum.

Fjölskylda Wallenbergs sótti athöfnina í gærkvöld. Minningarpeningurinn er með æðstu virðingarvottum sem bandarísk stjórnvöld veita almennum borgurum. „Þetta er töfrandi stund,“ sagði hálfsystir Wallenbergs, Nina Lagergren, þegar hún ávarpaði athöfnina. Hún vék að ráðgátunni um dauða hans og ítrekaði að fjölskyldan þrái ekkert heitar en að fá að vita sannleikann.

Sovétmenn sökuðu hann um njósnir

Barack Obama Bandaríkjaforseti hitti fjölskyldu Wallenbergs í Stokkhólmi í september 2013 og sagðist hann þá m.a. ætla að taka málið upp við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Ekkert hefur þó komið út úr því ennþá. Fjölskyldan hefur áratugum saman þrýst á stjórnvöld í Rússlandi að veita þeim aðgang að þeim hluta skjalasafns Sovétríkjanna sem kunni að geyma vísbendingar um örlög Wallenbergs, hvernig og hvers vegna hann dó.

Ra­oul Wal­len­berg var starfsmaður sænsku ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar í Búdapest frá því í júlí 1944 þar til 17. janú­ar 1945. Hann kom sér upp bækistöð í borginni í því skyni að forða gyðingum frá því að hafna í útrýmingarbúðum nasista og er talið að hann hafi bjargað allt að 100.000 manns frá bráðum bana.

Árið 1945 hvarf Wallenberg eins og jörðin hefði gleypt hann, eftir að Sovétmenn handtóku hann. Rússnesk stjórnvöld segja að hann hafi látið lífið í fangaklefa í Moskvu, en Wallenberg fjölskyldan dregur í efa hvort opinbera útgáfan sé sannleikanum samkvæm.

 „Ég er að fara til Mal­in­ovskíjs...hvort ég fer sem gest­ur eða fangi veit ég ekki ennþá.“ Þetta eru síðustu um­mæl­in sem höfð eru eft­ir Wal­len­berg.

Hvarf í Debrechn

Mal­in­ovskíj þessi, sem Wal­len­berg nefndi, var marskálk­ur í sov­éska hern­um í Debr­ecen sem vildi finna Sví­ann vegna gruns um að hann væri að njósna fyr­ir Banda­rík­in. Seinna var talið að Vilmos nokk­ur Böhm, ung­versk­ur stjórn­mála­maður sem síðar varð sendi­herra í Svíþjóð, hefði vakið at­hygli Jós­efs Stalíns á því að ör­ugg­ast væri að hneppa Wal­len­berg í fjötra.

Fáum sög­um fer af ferðum Wal­len­bergs eft­ir að hann hvarf í Debr­ecen. Þó er staðfest að hann var flutt­ur með lest til Moskvu. Hugs­an­lega hef­ur Stalín haft í hyggju að skipta á hon­um og sov­ésk­um föng­um síðar meir. Maður að nafni Gustav Richter, sem starfaði sem rit­ari í þýska sendi­ráðinu í Rúm­en­íu, kvaðst síðar hafa verið klefa­fé­lagi Wal­len­bergs í Lubyanka-fang­els­inu. Hann bar vitni um það í Svíþjóð árið 1955 að Wal­len­berg hafi verið yf­ir­heyrður einu sinni, í hálfa aðra klukku­stund, snemma í fe­brú­ar 1945. 1. mars sama ár hafði Richter klefa­skipti og sá Wal­len­berg aldrei eft­ir það.

Viku síðar til­kynnti ung­verska út­varpið, þar sem Sov­ét­menn höfðu tögl og hagld­ir, að Wal­len­berg og bíl­stjóri hans hefðu verið myrt­ir á leið til Debr­ecen. Hann hefði með öðrum orðum aldrei kom­ist á fund Mal­in­ovskíjs. Þessu trúðu sænsk stjórn­völd eins og nýju neti. Alltént var boði Banda­ríkja­manna um að hjálpa til við að grennsl­ast fyr­ir um Wal­len­berg í apríl 1945 hafnað. Staff­an Söder­blom, sendi­herra Svía í Sov­ét­ríkj­un­um, tók málið held­ur ekki upp á fundi með Stalín og Vyacheslav Molotov, ut­an­rík­is­ráðherra, í júní 1946.

Varð bráðkvaddur í fangaklefa

Ekk­ert spurðist til Wal­len­bergs í meira en ára­tug en í fe­brú­ar 1957 birtu sov­ésk stjórn­völd skjal þess efn­is að Wal­len­berg hefði orðið bráðkvadd­ur í fanga­klefa sín­um 17. júlí 1947. Í skjal­inu fer for­stöðumaður Lubyanka-fang­els­is­ins fram á það við varn­ar­málaráðherra lands­ins að fá að kryfja líkið til að finna bana­meinið.

Árið 1989 var per­sónu­leg­um mun­um Wal­len­bergs skilað til fjöl­skyldu hans, þar á meðal vega­bréfi hans og síga­rettu­hylki. Sov­ét­menn rák­ust víst á mun­ina þegar þeir voru að taka til í geymsl­um sín­um.

Árið 1991 fyr­ir­skipuðu stjórn­völd í Rússlandi rann­sókn á af­drif­um Wal­len­bergs. Niðurstaða henn­ar var sú að hann hefði verið tek­inn af lífi í Lubyanka-fang­els­inu árið 1947. Hvorki kom fram hvers vegna hann var líf­lát­inn né hvers vegna yf­ir­völd í Sov­ét­ríkj­un­um lugu til um til­drög dauða hans. Al­mennt er álitið að þessi skýr­ing sé rétt. Það breyt­ir ekki því að fjöl­mörg vitni töldu sig hafa rek­ist á Wal­len­berg í sov­ésk­um fang­els­um all­ar göt­ur fram til árs­ins 1987. Það er óstaðfest.

Móðir Wal­len­bergs og stjúp­faðir sviptu sig bæði lífi árið 1979, buguð af óviss­unni um af­drif son­ar síns

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, John Boehner afhenti Ninu Lagergren hálfsystur Raoul …
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, John Boehner afhenti Ninu Lagergren hálfsystur Raoul Wallenberg minningapening þingsins til heiðurs honum. AFP
Raoul Wallenberg árið 1944.
Raoul Wallenberg árið 1944.
Nina Lagergren, hálfsystir Raoul Wallenberg, ávarpaði athöfnina í þinghúsi Bandaríkjanna …
Nina Lagergren, hálfsystir Raoul Wallenberg, ávarpaði athöfnina í þinghúsi Bandaríkjanna í gærkvöld og sagði fjölskylduna þrá að vita örlög hans. AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti heimsótti sýningu um Raoul Wallenberg í Helfararsafninu …
Barack Obama Bandaríkjaforseti heimsótti sýningu um Raoul Wallenberg í Helfararsafninu í Stokkhólmi í september 2013 og hitti þá hálfsystur hans Ninu Lagergren. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert