Úrslitin ráðast við Brandenborgarhliðið

Þjóðverjar eru í keppnisskapi þessa dagana og við Brandenborgarhliðið í Berlín er verið að undirbúa úrslitin á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu. Leiknum verður varpað á risaskjá og almenningur er vongóður um sigur.

Þýskaland og Argentína leika til úrslita á HM á sunnudaginn. Eftir ótrúlegan 7-1 sigur sinna manna gegn Brasilíu í vikunni er rífandi stemning fyrir lokarimmunni í Þýskalandi. Fari þeir alla leið verður það í fjórða sinn sem Þýskaland hampar heimsmeistaratitlinum, en það gerðist síðast 1990, og þar áður 1974 og 1954.

Angela Merkel kanslari Þýskalands ætlar ekki að missa af úrslitastundinni. Hún verður þó ekki við Brandenborgarhliðið, heldur í Rio de Janeiro og hefur hún hagrætt dagskrá sinni næstu daga og frestað nokkrum fundum til að komast til Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert