Heilbrigðisstarfsfólk fari í átak

Mynd/Wikipedia

Simon Stevens, yfirmaður þjóðarheilbrigðisstofnunar Bretlands, NHS, segir í viðtali við The Sun að heilbrigðisstarfsfólk þurfi sjálft að lifa heilbrigðum lífsstíl til þess að geta betur ráðlagt sjúklingum að gera hið sama. Ætlar hann að ráðast í átak til þess að bjóða upp á hollari mat á spítölum á Englandi. 

Af 1,3 milljón starfsmönnum NHS á Englandi, eru um 700 þúsund þeirra yfir kjörþyngd. „Of margir spítalar bjóða upp á hamborgara og franskar, bæði handa starfsmönnum og sjúklingum,“ segir Stevens og vill hann að settir verði upp hvatar til þess spítalar bjóði upp á hollari mat. 

Þá er á döfinni að byggja fleiri líkamsræktarherbergi á spítölum landsins og verður boðið upp á verðlaun fyrir þá starfsmenn sem tekst að umturna lífsstíl sínum til hins betra. 

Offita er mikið vandamál í Bretlandi. Samkvæmt nýjustu tölum eru þrír af hverjum fjórum Bretum á aldrinum 45-74 yfir kjörþyngd. Unga fólkið á aldrinum 18-25 er eini hópurinn sem er að meðaltali með eðlilegt BMI (Body Mass Index). 

Sjá frétt The Daily Mail

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert