Pamela fór ekki til Færeyja

Pamela Anderson er virk baráttukona fyrir dýravernd.
Pamela Anderson er virk baráttukona fyrir dýravernd. AFP

Eflaust hafa einhverjir Færeyingar orðið fyrir vonbrigðum í dag þegar í ljós kom að ekkert yrði af boðaðri heimsókn Strandvarðastjörnunnar Pamelu Anderson. Pamela hugðist halda blaðamannafund í Þórshöfn, en varð veðurteppt í London.

Pamela er sem kunnugt er mikill unnandi dýraverndar og hefur beitt sér af krafti fyrir þeim málstað. Tilefni blaðamannafundarins í Þórshöfn var mótmæli gegn grindhvalaveiðum þeirra Færeyinga, en Pamela hefur tekið höndum saman við samtök Paul Watson, Sea Sheperd, sem talskona herferðarinnar „Operation GrindStop 2014“.

Ætlunin var að Pamela flygi til Þórshafnar í morgun til að flytja erindi á Hótel Færeyjum. Færeyski fréttavefurinn Portal greindi frá því í morgun, en um hádegi varð ljóst að ekkert yrði af því vegna þess, eins og fram kemur í frétt Portal, að veðrið „var ikki til vildar“.

Þess í stað bárust boð frá Sea Sheperd um að Pamela myndi leggja orð í belg á blaðamannafundinum í gegnum Skype.

Samtökin hafa ásamt Pamelu m.a. sett þrýsting á stjórnvöld í Danmörku um að leggja bann við grindhvalaveiðum, en þær hafa verið stundaðar í Færeyjum í árhundruð. Sjá frétt mbl.is um grindhvaladráp í Færeyjum 2013: Fjörður drifinn blóði grindhvala

Grindhvalaveiðar við Hvannasund í Færeyjum í nóvember 2013.
Grindhvalaveiðar við Hvannasund í Færeyjum í nóvember 2013. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert