Báðir vilja endurheimta munina

Munirnir verða í öruggri geymslu í Amsterdam þar til málin …
Munirnir verða í öruggri geymslu í Amsterdam þar til málin skýrast frekar. AFP

Forsvarsmenn Allard Pierson safnsins í Amsterdam hafa ákveðið að halda munum tengdum Krímskaga, sem hafa verið til sýnis á safninu undanfarið, lengur vegna deilna milli Rússa og Úkraínumanna um hver eigi að endurheimta þá. Elstu munirnir eru frá annarri öld fyrir Krist, en þeir voru fluttir til Hollands frá fjórum söfnum á Krímskaga í febrúar.

Söfnin, sem nú lúta stjórn rússneskra yfirvalda, hafa óskað eftir því að fá munina til baka, en það hafa stjórnvöld í Úkraínu einnig gert. Munirnir hafa verið hluti af sýningu um sögu Krímskaga og á henni að ljúka þann 31. ágúst.

Safnið lætur nú lögfræðinga fara yfir kröfur beggja aðila, en forsvarsmenn hollenska safnsins hafa ákveðið að geyma munina þar til „staðan skýrist frekar“, eða úrskurður dómara eða samkomulag kemur til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert