Stútur stal lögreglubíl

Maðurinn var vistaður í lögreglubílnum meðan lögregluþjónar sinntu öðrum á …
Maðurinn var vistaður í lögreglubílnum meðan lögregluþjónar sinntu öðrum á svæðinu. Ljósmynd/Wikipedia

Lögregluyfirvöld í Kanada hafa tekið handtöku- og varðhaldsferli sitt til skoðunar eftir að ölvuðum ökumanni tókst að ræna lögreglubíl sem hann var vistaður í og aka á brott fyrr í vikunni. Maðurinn var handtekinn á vettvangi bílslyss í Calgary og settur í aftursæti bílsins meðan lögregluþjónar sinntu öðrum einstaklingum á svæðinu. Skyndilega urðu þeir hins vegar varir við að bílnum var ekið á brott. Lögregluþjónar veittu manninum eftirför en misstu sjónar á honum á skítugum sveitavegi.

Þremur dögum síðar barst þeim ábending sem leiddi til þess að bíllinn fannst og þjófurinn var handtekinn. Hann hefur nú verið ákærður fyrir akstur undir áhrifum, bílrán og að óhlýðnast boðum lögreglu.

„Þetta getur gerst, þó það sé sjaldgæft,“ sagði lögreglustjórinn Mel Calahasen í samtali við AFP fréttaveituna.

Hann bætti því við að allir lögreglubílar væru útbúnir GPS staðsetningarkerfi, en bílræningjanum hefði tekist að slökkva á því í þessu tilfelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert