Gerðu árás á búðir Shebab

AFP

Bandaríkjaher gerði loftárás á búðir Shebab-samtakanna í Sómalíu og var árásinni beint að leiðtoga þeirra. Ekki hefur verið upplýst hvort árásin skilaði tilætluðum árangri.

Leiðtogi Shebab-samtakanna, Ahmed Abdi Godane, sem oft gengur undir nafninu Abu-Zubayr, er samkvæmt skilgreiningu bandaríska varnarmálaráðuneytisins einn af átta hættulegustu hryðjuverkamönnum heims sem ganga lausir.

Í grein Boga Þórs Arasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, frá því í september í fyrra kemur fram að Ahmed Abdi Godane hefur getið sér orð fyrir að vera bókhneigður, ljóðelskur og mælskur, en jafnframt svo grimmur og miskunnarlaus blóðhundur að jafnvel Osama bin Laden varð um og ó.

Godane er leiðtogi íslömsku hryðjuverkasamtakanna al-Shebab sem talið er að hafi staðið fyrir árásinni í Naíróbí sem kostaði tugi manna lífið. Hermt er að Godane hafi um skeið verið í þjálfunarbúðum fyrir hryðjuverkamenn í Afganistan á valdatíma talibana. Hann varð leiðtogi Shebab árið 2008 eftir að þáverandi forystumaður samtakanna, Adan Hashi Ayro, beið bana í flugskeytaárás Bandaríkjahers.

Leiðtogi al-Qaeda, Ayman al-Zawahiri, hefur viðurkennt Godane sem leiðtoga vopnaðra liðsmanna íslamista í Austur-Afríku. Osama bin Laden hafði hins vegar lítið álit á Godane, ef marka má bréf sem bin Laden skrifaði og birt voru eftir að hann beið bana í árás bandarískrar hersveitar í Pakistan árið 2011.

Godane er hálffertugur og fæddist í borginni Hargeisa í Sómalílandi í norðanverðri Sómalíu. Hann gekk í íslamskan barnaskóla og stóð sig svo vel í náminu að hann fékk styrk til að stunda framhaldsnám í Súdan. Seinna fékk hann annan styrk til náms í Pakistan og þar komst hann í tæri við íslamska ofstækismenn. Hermt er að hann hafi farið þaðan í þjálfunarbúðir talibana í Afganistan og barist með íslamistum í Kasmír.

Godane sneri aftur til Sómalíu árið 2002 og gekk til liðs við samtök íslamista sem náðu stórum svæðum í sunnanverðu landinu á sitt vald. Hann var á meðal forystumanna samtakanna til ársins 2006 þegar stjórnarhernum tókst að flæma íslamistana á brott með aðstoð hers Eþíópíu. Harðlínumenn úr röðum íslamistanna stofnuðu þá Shebab og Godane gekk til liðs við nýju samtökin árið 2007.

Godane varð leiðtogi Shebab nokkrum mánuðum eftir að Adan Hashi Ayro féll í flugskeytaárásinni. Godane kom á sjaría-lögum á yfirráðasvæðum sínum í Sómalíu. Hann gekk svo langt í því að framfylgja sjaría, m.a. með því að láta grýta konur til bana fyrir lögbrot, að jafnvel Osama bin Laden þótti nóg um og gagnrýndi hann fyrir að drepa múslíma.

Stig Jarle Hansen, norskur fræðimaður sem hefur skrifað bók um Shebab, segir að þessi gagnrýni kunni að vera skýringin á því hvers vegna árásarmennirnir í verslunarmiðstöðinni í Kenía forðuðust að ráðast á múslíma. Að sögn sjónarvotta spurðu árásarmennirnir gíslana hvort þeir væru múslímar og ef þeir svöruðu játandi þurftu gíslarnir að svara nokkrum spurningum sem múslímar ættu að geta svarað rétt.

Eins og aðrir hryðjuverkamenn forðast Godane myndavélar eins og heitan eldinn og fáar myndir eru því til af honum. Hann er sagður vera bókhneigður og hafa mikla unun af því að lesa og fara með sómölsk ljóð, einkum erindi þar sem andstaða múslíma við breska og ítalska nýlenduherra er lofsömuð.

Godane er sagður hafa komist til valda í Shebab með því að myrða keppinauta sína innan samtakanna og bola öðrum í burtu. Hann er eftirlýstur í heimalandi sínu fyrir morð á breskum hjónum, Enid og Richard Eyeington, sem voru skotin til bana fyrir tíu árum í skóla í Sómalílandi þar sem þau voru kennarar.

Auk árásarinnar blóðugu í Kenía stóð Godane fyrir sprengjuárás í Kampala, höfuðborg Úganda, í júlí 2010 þegar 74 létu lífið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert