Ben Bradlee látinn

Ben Bradlee, fyrrverandi ristjóri Washington Post, er látinn.
Ben Bradlee, fyrrverandi ristjóri Washington Post, er látinn. TIM SLOAN

Ben Bradlee, fyrrverandi ritstjóri Washington Post, sem stjórnaði fréttaskrifum blaðsins um Watergate-málið og birtingu Pentagon-skjalanna, lést á þriðjudag 93 ára að aldri. Greint var frá þessu á vefsíðu blaðsins.

Bradlee tók við ritstjórn blaðsins 1965 og setti mark sitt strax á skrif blaðsins. Hann hvatti blaðamenn sína til að stunda ágenga blaðamennsku, en lagði einnig áherslu á fréttaskýringar og mannlífsgreinar, sem fram að því höfðu einkum birst í tímaritum. Í andlátsfrétt Washington Post segir að hann hafi verið virtasti ritstjóri síns tíma.

Umfjöllun Washington Post um Watergate-málið setti sennilega mestan svip á feril Bradlees. Blaðið hóf fréttaflutning af málinu, sem lyktaði með því að Richard M. Nixon sagði af sér embætti forseta 1974, fyrsti og eini forsetinn, sem það hefur gert í sögu Bandaríkjanna.

Bradlee sagði í viðtali, sem Jóhannes Kr. Kristjánsson tók við hann og birtist í Morgunblaðinu 2001, að erfiðasti tíminn í sínu starfi hefði verið á meðan á rannsókn Watergate-málsins stóð yfir: "Starfsólk Hvíta hússins beitti okkur gríðarlegum þrýstingi og ætlaði sér að eyðileggja orðstír blaðsins. Katharine Graham, eigandi The Washington Post, var beitt miklum þrýstingi og reyndu meira að segja vinir hennar að telja hana á að hætta rannsókn blaðsins á Watergate-málinu. Meðal þeirra sem beittu sér mikið gegn blaðinu var fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush, en á þessum tíma var hann formaður Repúblikanaflokksins og Bob Dole, fyrrverandi forsetaframbjóðandi," sagði Bradlee í viðtalinu.

Bradlee sagði einnig í viðtalinu að þegar umfjöllun blaðsins stóð sem hæst og blaðið var það eina sem birti fréttir um málið, þá hefði andrúmsloftið á fréttastofunni verið lævi blandið: "Við vissum að ef við hefðum rangt fyrir okkur í þessu máli, þá yrðum við allir atvinnulausir og fengjum hvergi starf innan fjölmiðlaheimsins og dagar blaðsins hefðu verið taldir. Ábyrgð ritstjóranna, fréttamannanna og blaðsins var því mikil."

Ákvörðun Bradlees ásamt Katherine Graham, útgefanda Washington Post, árið 1969 um að birta fréttir, sem byggðar voru á Pentagon-skjölunum, var kannski ekki síður afdrifarík. Í skjölunum, sem lekið var til fjölmiðla, var sögð hlið á stríðinu í Víetnam, sem haldið hafði verið leyndri fyrir almenningi. Stjórn Nixons leitaði til dómstóla til að reyna að stöðva birtingu fréttanna, en hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti ákvörðun The New York Times og The Washington Post um að birta fréttirnar.

Frægð Bradlees byggðist meðal annars á kvikmyndinni All The President's Men, sem byggð var á bók tveggja blaðamanna Washington Post, Bobs Woodwards og Carls Bernsteins. Þar fór Jason Robards með hlutverk Bradlees.

Bradlee hætti sem ritstjóri Washington Post árið 1991, en starfaði áfram við blaðið. Hann sagði einhvern tímann að hann hefði litið á það sem lykilatriði að ráða fólk, sem væri gáfaðra en hann sjálfur, á ritstjórnina og skapa því umhverfi til að blómstra. Árið 2013 veitti Barack Obama Bandaríkjaforseti honum frelsisorðuna með orðunum: „Hann breytti blaðinu í eitt það besta í heimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert