WHO með neyðarfund vegna ebólu

AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur boðað til neyðarfundar vegna ebólu-faraldursins. Þar verður rætt um hvaða möguleikar séu í stöðunni til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins sem geisar í Vestur-Afríku.

Útgönubann hefur nú verið sett í bænum Koidu í Sierra Leóne en lögregla skaut tvo mótmælendur þar til bana. Ástæða mótmælanna var ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að setja níræða konu í einangrun vegna gruns um ebólusmit. Samkvæmt upplýsingum BBC er konan nú látin en ekki er komið í ljós hvort hún hafi verið með ebólu.

Í Bandaríkjunum hafa tekið gildi nýjar reglur varðandi farþega sem koma með flugi frá Líberíu, Gíneu og Sierra Leóne. Þeim er nú gert að fara í ítarlega rannsókn við komuna til landsins og er einungis heimilt að lenda á fimm flugvöllum: O'Hare í Chicago, JFK í New York, Newark í New Jersey, Washington's Dulles og Atlanta. 

Innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Jeh Johnson segir að yfirvöld vinni náið með flugfélögum við að kynna þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í baráttunni við ebólu. Ekkert beint flug er til Bandaríkjanna frá V-Afríkuríkjunum þremur.

WHO hefur legið undir ámæli fyrir að hafa brugðist of hægt við útbreiðslu sjúkdómsins. Á fundinum í dag mun neyðarráð stofnunarinnar ræða hvað hægt er að gera því þrátt fyrir að fyrstu skammtarnir af bóluefninu séu að verða tilbúnir til prufu þá eru mánuðir og jafnvel ár þar til hægt verður að fara í almennar bólusetningar gegn ebólu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert