Læstist inni í ofni og lét lífið

AFP

Breskur karlmaður á sextugsaldri lét lífið þegar hann lokaðist inni í ofni í verksmiðju fyrirtækisins Pyranha Mouldings Ltd. í Liverpool. Ofninn var notaður til þess að framleiða kajaka úr plasti og gat náð allt að 280 gráða hita. Fréttavefur Daily Telegraph greinir frá þessu.

Málið er nú fyrir dómstólum en maðurinn, Alan Catterall, fór inn í ofninn til þess að sinna viðgerðum á honum. Samstarfsmaður Catteralls, Mark Francis, sem einnig var tilvonandi tengdasonur hans, vissi ekki af honum í ofninum og setti ofninn í gang. Við það lokaðist Catterall inni í ofninum.

Fram kom fyrir dómi að Catterall hefði greinilega reynt að komast út úr ofninum með því að nota kúbein. Vegna hávaða á vinnustaðnum hefði enginn getað heyrt í honum inni í ofninum. Stýrikerfi ofnsins var hannað þannig að um leið og hann var settur í gang lokaðist hann sjálfvirkt. Engin leið var að opna hann innanfrá. Lík Catteralls var mjög brunnið þegar það fannst loksins. Samstarfsmenn hans áttuðu sig ekki á mistökunum fyrr en reyk fór að leggja frá ofninum.

Dómsmálið er höfðað gegn Pyranha Mouldings en fyrirtækið er ákært fyrir að hafa valdið dauða mannsins. Þá eru forsvarsmenn þess ákærðir fyrir að brjóta gegn lögum og reglum um öryggismál. Sjálfstætt starfandi rafmagnsverkfræðingur, sem hannaði og setti upp rafstýringu ofnsins, er einnig ákærður í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert