Myrti eiginkonu sína og svipti sig lífi

Wikipedia

Bresk kona og bandarískur eiginmaður hennar fundust látin á mánudaginn á heimili sínu í þorpinu Fabas í suðvesturhluta Frakklands. Konan Sheila Hawkins var 86 ára gömul og eiginmaður hennar Derek 98 ára en lögregla telur að hann hafi skotið eiginkonu sína og í kjölfarið svipt sig lífi með sama hætti.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að heimilishjálp hafi fundið líkin. Engin merki hafi verið um átök í húsinu. Lögregla fann skammbyssu á vettvangi sem var í eigu Dereks Hawkins. Hann hafi nýverið sagt við sjúkraþjálfara að hann væri orðinn andlega þreyttur og að ef hann tæki ákvörðun um að yfirgefa þennan heim færi hann ekki einn.

Rifjað er upp hliðstætt atvik í fréttinni sem átti sér stað í París höfuðborg Frakklands þar sem 84 ára franskur karlmaður skaut eiginkonu sína til bana þar sem hún lá á sjúkrahúsi með banvænt krabbamein og svipti sig síðan lífi þar sem hann gat ekki hugsað sér lífið án hennar. Hjónin höfðu nokkru áður gert misheppnaða tilraun til þess að svipta sig lífi saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert