Setti byssuna sjálfur í poka

Frá mótmælum í Los Angeles vegna þeirrar ákvörðunar kviðdóms að …
Frá mótmælum í Los Angeles vegna þeirrar ákvörðunar kviðdóms að lögreglumaðurinn sem banaði Michael Brown í Ferguson skyldi ekki ákærður. AFP

Rannsókn yfirvalda á því þegar lögreglumaður skaut svartan unglingspilt til bana í bænum Ferguson í Missouri var um margt óvenjuleg. Lögreglumaðurinn sá til dæmis sjálfur um að setja byssuna sem hann skaut piltinn með í innsiglaðan sönnunargagnspoka. Þetta kemur fram í gögnum málsins sem lögð voru fyrir kviðdóm. Hann ákvað að lögreglumaðurinn skyldi ekki ákærður.

Þegar lögregluþjónninn Darren Wilson yfirgaf vettvang fór hann einn síns lið aftur á lögreglustöðina, þvoði blóð af höndum sér og kom skammbyssunni sem hann notaði til að skjóta hinn óvopnaða Michael Brown til bana fyrir í innsigluðum poka fyrir sönnunargögn. Enginn tók myndir af höndum Wilson á stöðinni áður en hann þvoði sér þar sem að enginn ljósmyndari var á staðnum.

Lögreglumennirnir sem tóku skýrslu af Wilson tóku framburð hans ekki upp og aðrir lögreglumenn voru jafnvel viðstaddir á meðan skýrslutakan fór fram. Einnig kom í ljós að starfsmaður réttarlæknisins í St. Louis-sýslu gerði engar mælingar á vettvangi.

„Ég kom á staðinn, það útskýrði sig sjálft hvað gerðist. Einhver skaut einhvern. Það var engin spurning um einhverjar fjarlægðir eða nokkuð slíkt þegar ég var þarna,“ sagði starfsmaðurinn sem er 25 ára gamall en er lýst sem „þrautreyndum“ í gögnum málsins.

Hann tók engar myndir af vettvangi sjálfur heldur notaðist við myndir sem lögreglumenn frá St. Louis-sýslu höfðu tekið. Ástæðan var sögð sú að rafhlaðan í myndavélinni hans hafi verið tóm.

Þess fyrir utan var nokkuð ósamræmi á milli framburða. Wilson sagði til að mynda við fyrstu skýrslutöku að hann hafi skotið einu skoti í lögreglubílnum í átökum við Brown. Í framburði sínum sagði hann hins vegar að hann hafi skotið tveimur skotum eftir að byssan hans hafði staðið á sér nokkrum sinnum.

Frétt The Washington Post af rannsóknargögnum málsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert