Takmarka losun ósons enn frekar

Óson getur valdið loftmengun eins og sést liggja hér yfir …
Óson getur valdið loftmengun eins og sést liggja hér yfir Los Angeles-borg. AFP

Bandaríska umhverfisstofnunin ætlar að herða reglur um losun ósons þar sem að nýjar rannsóknir bendi til þess að þau viðmið sem nú gilda leyfi of mikla mengun í lofti. Óson getur valdið astma, öðrum lungnasjúkdómum og jafnvel dauða af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.

„Með því að færa viðmið um ósonmengun til samræmis við nýjustu vísindi hreinsum við loftið, bætum aðgang að mikilvægum upplýsingum um loftgæði og verndum þá sem eru veikastir fyrir,“ segir Gina McCarthy, forstöðumaður umhverfisstofnunarinnar í yfirlýsingu.

Óson er mikilvæg lofttegund í heiðhvolfinu sem verndar líf á jörðinni fyrir skaðlegum áhrifum geisla sólarinnar. Það er hins vegar tærandi, eitrað og mengunarvaldur á jörðu niðri. Þar myndast það þegar sólin hitar upp mengun á borð við nituroxíð og hvarfgjörn lífræn efni sem losna frá bílum, iðnaði og orkuverum.

Umhverfisstofnunin vill lækka leyfilegt magn af ósoni í útblæstri um að minnsta kosti 10%. Það byggist á niðurstöðum yfir þúsund nýrra rannsókna sem gerðar hafa verið frá árinu 2008. Stofnunin telur þessa ráðstöfun geta fækkað dauðsföllum um allt frá 750 til. 4.300 á ári. Hún gæti einnig fækkað astmaköstum fólk um hundruð þúsunda.

Tilkynning umhverfisstofnunarinnar hefur þegar vakið hörð viðbrögð hjá bandarískum iðnfyrirtækjum. Framleiðsla gæti minnkað eða stöðvast alveg í ríkjum sem ekki geta brugðist við nýjum viðmiðum. Þau viðmið sem gildi nú þegar séu þau ströngustu í sögunni og þau hafi enn ekki tekið gildi alls staðar.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að umhverfisstofnunin virðist vera að lækka ósónviðmiðið áður en hún lýkur við núverandi viðmið,“ segir í yfirlýsingu samtaka efnaframleiðenda í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert