Finnar lögleiða hjónabönd samkynhneigðra

Þúsundir stuðningsmanna jafnréttis til hjónabands komu saman fyrir utan þinghúsið …
Þúsundir stuðningsmanna jafnréttis til hjónabands komu saman fyrir utan þinghúsið í Helsinki í dag. AFP

Finnska þingið samþykkti í dag frumvarp sem heimilar samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Þúsundir stuðningsmanna frumvarpsins söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í Helsinki og fögnuðu vel þegar niðurstaðan lá fyrir.

Atkvæðagreiðslan í þinginu fór á þann veg að 105 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en 95 voru því mótfallnir. Nýju lögin kalla á frekari lagabreytingar og því munu þau ekki taka gildi fyrr en 2016. Þá verða hjónabönd samkynhneigðra heimil alls staðar á Norðurlöndunum. Samkynhneigðir hafa hins vegar getað verið í staðfestri sambúð frá árinu 2002.

Alexander Stubb, forsætisráðherra, sagðist samgleðjast samkynhneigðum Finnum innilega þegar niðurstaðan lá fyrir. Formanni hins hægrisinnaða stjórnarandstöðuflokks Sannra Finna var hins vegar ekki skemmt.

„Fyrir mér verður hjónaband alltaf á milli karls og konu. Ég mun ekki breyta afstöðu minni. Þetta verður í fyrsta skipti sem við gerum það eðlilegt að börn séu fjarlægð frá líffræðilegum rótum sínum,“ sagði Timo Soini, formaður Sannra Finna.

Erkibiskup finnsku lútersku ríkiskirkjunnar gladdist yfir niðurstöðunni og sagði að málið hafi hrist upp í kirkjunni á jákvæðan hátt.

Fyrir utan þinghúsið var gleðin einnig ósvikin en talið er að um fimm þúsund manns hafi komið þar saman. Líkti fréttamaður finnska ríkisútvarpsins YLE stemmingunni við kjötkveðjuhátíð.

Frétt finnska ríkisútvarpsins YLE af lögleiðingu hjónbanda samkynhneigðra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert