Frans páfi heimsækir Tyrkland

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Frans páfi.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Frans páfi. AFP

Frans páfi kom til Tyrklands í dag í opinbera heimsókn en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur til landsins. Markmið heimsóknarinnar er að stuðla að bættum samskiptum við múslima og sýna minnihlutahópum kristinna manna í miðausturlöndum, sem eiga undir högg að sækja, stuðning.

Fram kemur í frétt AFP að Frans páfi hafi átt fund með Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Mevlut Cavusoglu utanríkisráðherra tók á móti honum á flugvellinum í Ankara höfuðborg landsins. Páfinn lagði í dag blómsveig við grafhýsi Mustafa Kemal Ataturk sem nefndur hefur verið faðir Tyrklands nútímans.

Páfinn mun verða í Istanbúl á morgun og á sunnudaginn og heimsækja þar helstu minjar um sögu Býsanska-ríkisins og Ottoman-heimsveldisins og ennfremur hitta patríarka rétttrúnaðarkirkjunnar í landinu Bartholomew I.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert