FBI sakað um klúður

Höfuðstöðvar bandarísku alríkislögreglunnar FBI.
Höfuðstöðvar bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur gerst sek um mistök og vanrækslu varðandi skráningu og geymslu fjölmargra sönnunargagna að því er fram kemur í umfjöllun The New York Times, sem hefur undir höndum innanhússskýrslu FBI um málið.

Fram kemur að alríkislögreglan hafi gert mistök í því að halda utan um vopn, verðmæti, fjármuni og fíkniefni sem lögreglan hefur lagt hald á við rannsókn sakamála. Fram kemur í skýrslunni, að um villur sé að finna í skráningu um helmings allra sönnunargagna. Alls voru 41.000 sönnunargögn skoðuð í rannsókninni. 

FBI stendur fyrir alvarlegum vanda þar sem mistök geta leitt til þess að dómarar vísi málum frá dómi vegna annmarka. 

Stjórnendur FBI hafa haft samband við saksóknara til að upplýsa þá um efni skýrslunnar og þeim vanda sem við er að etja. 

Í skýrslunni segir að rekja megi margar villur til galla í tölvukerfi, en einnig er greint frá dæmum um lögreglumenn sem hafa tekið með sér sönnunargögn og ekki skilað þeim fyrr en mörgum mánuðum seinna. Í einhverjum tilfellum er um að ræða nokkur ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert