Enn margt óljóst varðandi morðin

Enn er margt óljóst hvað varðar ástæður þess að móðir myrti sjö börn sín og frænku í Ástralíu í síðustu viku. Dómari hafnaði beiðni verjenda hennar um að réttað verði í málinu fyrir sérstökum dómstól fyrir andlega vanheilt fólk. 

Raina Mersane Ina Thaiday, 37 ára, er ákærð fyrir að hafa myrt átta börn, fjóra stráka og fjórar stelpur á aldrinum 18 mánaða til fjórtán ára. Mál hennar verður næst tekið fyrir í réttarsal þann 30. janúar nk. 

Thaiday er enn á sjúkrahúsi í Cairns og er gætt af lögreglu en hún veitti sjálfri sér áverka þegar hún myrti börnin á föstudag.

Lögmaður hennar segir að hún reyni eftir fremsta megni að aðstoða lögreglu við að upplýsa um morðin. Hann segist telja að hún viti væntanlega hvað hafi gerst en átti sig ekki á því. 

Einn þingmanna á héraðsþinginu í Queensland, Gavin King, segir að hann eigi von á því að húsið þar sem Thaiday myrti börnin verði jafnað við jörðu og þar komið fyrir minningarreit um voðaverkin.

King segir að þetta geti hjálpað aðstandendum barnanna því enginn vilji koma inn í þessa hús framar.

Lögreglan er enn að stöfum inni í húsinu og á von á því að rannsókn málsins taki tíma. Ekki hefur enn verið upplýst formlega um dánarorsök en meðal annars virðist allt benda til þess að einhver þeirra hafi verið kæfð. Mikið magn vopna, þar á meðal safn hnífa, fundust í húsinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert