Hyggjast lífláta mann með þroskaskerðingu

Robert Ladd.
Robert Ladd.

Yfirvöld í Texas hyggjast taka hinn 57 ára Robert Ladd af lífi í nótt nema Hæstiréttur Bandaríkjanna grípi inn í á síðustu stundu. Greindarvísitala Ladd hefur verið metin sem 67 en meðal greindarvísitala manna liggur á bilinu 80 til 115. Þessu greinir Huffington Post frá.

Lögmenn Ladd hafa borið því við að ekki eigi að taka Ladd af lífi vegna fordæmis frá Hæstarétti Bandaríkjanna þar sem lagt var bann við því að beita dauðarefsingunni á þá sem eru með vitrænar skerðingar. Þeim rökum hefur hinsvegar verið hafnað fyrir dómstólum nú þegar.

Ladd var dæmdur fyrir morð á hinni 38 ára gömlu Vicki Ann Gamer árið 1996. Lögmenn hans hafa ekki reynt að mæla gegn sekt hans.

Árið 1970 var hinum þá 13 ára Ladd lýst með orðunum „nokkuð augljóslega þroskaskertur“ af barnaverndarnefnd í Texas.

Sálfræðingurinn sem rannsakaði Ladd árið 1970 hefur ítrekað þá niðurstöðu sína í eiðsvarinni yfirlýsingu þar sem hann segir að greindarvísitölupróf og þrjú aðskilin viðtöl hans við Ladd staðfesti greiningu hans.

Fyrr í vikunni var annar maður með þroskaskerðingu, Warren Lee Hill, líflátinn í Atlanta í Georgíu fyrir að myrða samfanga sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert