Rændu skartgripum dulbúnir sem konur

AFP

Franskur dómstóll hefur dæmt átta menn í fangelsi fyrir að hafa ráðist inn í verslun Harry Winston í París og stolið skartgripum að andvirði yfir 100 milljóna evra eða um 15 milljarða króna. 

Um er að ræða röð innbrota á níu mánaða tímabili frá 2007-2008. Douadi Yahiaoui, sem var forsprakki hópsins, var dæmdur í 15 ára fangelsi. Yahiaoui, sem er fimmtugur á þessu ári, hefur þegar setið í fangelsi í 23 ár af ævi sinni fyrir þjófnaði og fíkniefnasmygl. 

„Hann var heilinn í hópnum. Hann skipulagði allt, fékk menn til liðs við sig, sagði mönnum til verka og kom skartgripunum í umferð,“ sagði fulltrúi ákæruvaldsins í dómsal. 

Ránin voru alvarleg en byssur voru notaðar til að hóta starfsmönnum verslananna. Í fyrsta ráninu í október 2007 höfðu ræningjarnir komist inn í verslun að næturlagi og tóku starfsmennina fasta þegar þeir mættu til vinnu um morguninn. Starfsmennirnir voru bundnir og verslanastjórinn var þvingaður til þess að aftengja öryggiskerfið. Höfðu ræningjarnir á brott með sér úr og skartgripi að andvirði 32 milljóna evra. Árið eftir rændu þeir sömu verslun með sömu aðferð en í það skiptið voru ræningjarnir í dulargervum, meðal annars voru einhverjir í kvenmannsfötum. Í það skiptið höfðu þeir á brott með sér verðmæti að andvirði 71 milljóna evra. 

Sjá frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert