Ugla hrellir þorpsbúa í Hollandi

Uglur geta verið skeinuhættar mönnum.
Uglur geta verið skeinuhættar mönnum. Af Wikipedia

Íbúum í hollenska bænum Purmerend hefur verið ráðlagt að hafa með sér regnhlífar að nóttu til eftir ítrekaðar árásir uglu á bæjarbúa. Tugir þeirra hafa orðið fyrir höfuðmeiðslum síðustu þrjár vikur vegna beittra klóa uglunnar.

Tveir hlauparar urðu fyrir árás á þriðjudag og þurfti að sauma saman sár annars þeirra á fimm mismunandi stöðum á höfði hans. Alla jafna er bráð uglunnar lítil spendýr og fuglar.

Einn af þeim stöðum sem hafa þurft þurft að sæta árásum er heimili fyrir fatlað fólk. Talsmaður heimilisins segir í samtali við fréttaveitu AFP að íbúar og starfsfólk hafi orðið fyrir 15 árásum af völdum fuglsins, sem enn hrellir íbúana.

„Á daginn eru engin vandamál en á næturnar förum við aðeins út úr húsi vopnuð regnhlífum, hjálmum og höttum, og í raun hverju sem við getum fundið til að verja okkur.“

Hollenska uglustofnunin segir að hegðun dýrsins megi rekja til þess að það hafi verið í vörslu manna og tengir þá þar af leiðandi við öflun matar. Þá geti einnig verið að mikil aukning hormóna valdi árásargirni uglunnar þar sem mökunartímabil tegundarinnar er nú hafið.

Bæjarráð Purmerend ráðleggur bæjarbúum að reyna ekki að ná uglunni. „Þetta mun taka einhvern tíma,“ segir í tilkynningu. „Í millitíðinni beinum við því til fólks að halda sig fjarri uglunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert