Íraskar hersveitir svara til baka

Íraskir ríkisborgarar sem bjuggu í borginni Ramadi flúðu margir heimili …
Íraskir ríkisborgarar sem bjuggu í borginni Ramadi flúðu margir heimili sín eftir að Ríki íslams náði stjórn á borginni. SABAH ARAR

Íraskar hersveitir náðu í dag aftur valdi á landsvæði sem hafði verið undir stjórn Ríkis íslams í austurhluta Ramadí. Um er að ræða fyrstu aðgerðir stjórnvalda í Írak frá því að Ríki íslams tók yfir höfuðborg Anbar héraðs fyrir viku síðan.

Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að hersveitirnar hafi ráðist á bæinn Husaybah við Euphrates-ánna en bærinn er landfræðilega vel staðsettur fyrir hernað. Hersveitir Íraks samanstóðu af hermönnum, lögreglumönnum, sérstakri sveit innanríkisráðuneytis landsins og hermönnum ættbálka á svæðinu.

„Aðgerðir hersins við frelsun Husaybah, sjö kílómetra austur af Ramadí, eru hafnar,“ sagði yfirmaður hjá lögreglu í samtali við AFP. „Okkur hefur tekist að frelsa lögreglustöðina í Husaybah og eins svæðið þar í kring. Aðgerðum miðar vel áfram,“ sagði yfirmaðurinn hjá lögreglu en hann vildi ekki láta nafns síns getið þar sem honum er ekki heimilt að tjá sig við fjölmiðla.

Leiðtogi eins helsta ættbálks á svæðinu, Sjeik Rafia Abdelkarim al-Fahdawi sem er í ættbálknum Albu Fahd, staðfesti einnig aðgerðirnar við AFP og sagði þeim miða vel áfram.

„Aðgerðunum sem ætlað er að ná aftur valdi á Husaybah eru í fullum gangi með breiðan stuðning frá hermönnum ættbálksins,“ sagði hann og bætti við að öryggissveitir hafi þegar náð stjórn á stóru landsvæði.

Vígamenn Ríkis íslams hertóku borgina Ramadi eftir þriggja daga baráttu milli þeirra og yfirvalda. Reyndu vígamennirnir að nýta sér velgengnina í árásunum og skriðþungann til þess að ná aukinni fótfestu í austurhluta borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert