Viðrar vel fyrir loftslagssamning

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, mun stjórna loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í …
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, mun stjórna loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í París í desember. AFP

Pólitíska stemmingin fyrir því að ná samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum hefur aldrei verið betri en nú að mati Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands. Ýmis gríðarlegar flókin úrlausnarefni verða engu að síður til umfjöllunar á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í París í desember.

Fabius, sem mun verða einn af stjórnendum þingsins, telur að þjóðarleiðtogar, forsvarsmenn fyrirtækja og almenningur hafi aldrei verið eins ákveðinn í að taka á loftslagsbreytingum sem eru að verða á jörðinni vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. 

„Tóninn er jákvæður en það verður jafnframt gríðarlega erfitt [að ná samkomulagi],“ segir Fabius. Hann varar jafnframt við því að með samkomulagi verði loftslagsbreytingar ekki stöðvaðar heldur muni það marka nýtt upphaf aðgerða.

Enn brýnna að ná samkomulagi nú

Loftslagsþingið stendur yfir dagana 30. nóvember til 11. desember í París en þar koma saman þær 196 þjóðir sem eiga aðild að rammasamningi SÞ um loftslagsbreytingar. Síðast var þess freistað að ná samkomulagi um sameiginlegar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Kaupmannahöfn árið 2009. Það dagaði hins vegar uppi í ósætti og illdeilum.

Fabius segir hins vegar að nú sé ástæða til bjartsýni.

„Helsta ástæðan fyrir því er því miður að loftslagsstaðan hefur versnað. Nauðsyn þess að ná pólitísku samkomulagi er enn brýnni en áður,“ segir hann.

Lofaði hann Kínverja og Bandaríkjamenn, stærstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminum, fyrir að hafa lýst sameiginlega yfir áformum um að draga úr losun sinni. Þá sagði Fabius að vísindaleg gögn hafi svo gott sem þaggað niður í þeim sem drógu í efa að loftslagsbreytingar ættu sér stað eða að menn væru ekki ábyrgir fyrir þeim.

„Enginn véfengir að fyrirbærið sé raunverulegt á fundum lengur,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert