Misvísandi upplýsingar frá Aþenu

Wolfgang Schaeuble og Angela Merkel, kanslari Þýskalands á fundi í …
Wolfgang Schaeuble og Angela Merkel, kanslari Þýskalands á fundi í dag. AFP

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, segir að grísk stjórnvöld séu að senda misvísandi skilaboð í skuldaviðræðum sínum og kallar hann eftir að ríkisstjórn landsins skýri stöðu sína áður en samningaviðræður geti haldið áfram. Lét hann þessi orð falla í dag, en á sama tíma og reynt hefur verið að semja um skuldamál ríkisins ákvað forsætisráðherra Grikklands að senda tilboð kröfuhafa í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sagði Schaeuble að mismunandi upplýsingar kæmu frá Aþenu um hvort þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram eða ekki. Þá væri heldur ekki víst hvort ríkisstjórnin væri fylgjandi því að kjósa já eða nei í atkvæðagreiðslunni. „Þetta er enginn grundvöllur fyrir áframhaldandi viðræður um mikilvæg málefni,“ sagði hann.

Þá sagði hann að engar viðræður milli kröfuhafanna og Grikklands væru mögulegar þangað til atkvæðagreiðslan væri afstaðin, en hún á að fara fram á sunnudaginn. Greint var frá því í dag að grísk stjórnvöld hefðu sent móttilboð til kröfuhafa, en Schaeuble virðist ekki á þeirri skoðun að hægt verði að skoða það fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna. „Áður en atkvæðagreiðslan fer fram, þá er í raun enginn grundvöllur“ til að komast að samkomulagi, var haft eftir honum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert