Hundur át fótlegg manns inn að beini

Hundurinn át fótlegg mannsins.
Hundurinn át fótlegg mannsins.

Lögregluþjónar í Ástralíu fundu á dögunum lík manns á heimili rétt fyrir utan Melbourne, en annar fótleggur mannsins hafði verið étinn inn að beini af hundi.

Lögregluþjónarnir voru að sinna eftirliti á þriðjudag þegar þeir fundu lík mannsins, sem sagður er hafa verið 49 ára gamall.

Nágrannar mannsins höfðu kvartað undan stöðugu gelti í hundi frá húsinu og þegar lögregluþjónar fóru inn í húsið tók hundurinn á móti þeim mjög árásargjarn. Kalla þurfti til sérsveitarmenn til að halda hundinum frá.

Lögregluþjónarnir fundu líkið í rúmi mannsins, en hægri fót hans vantaði og sá vinstri hafði verið étinn inn að beini. 

Ekki er vitað af hvaða tegund hundurinn er eða hvort maðurinn hafi þegar verið látinn þegar hundurinn tók að éta á honum fótinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er andlát mannsins þó ekki rannsakað sem sakamál að því er fram kemur í frétt AFP fréttastofunnar.

Maðurinn sást síðast fjórum vikum áður, en hann bjó einn með hundinum. Hundurinn er nú í haldi dýravelferðarþjónustu en ekki hefur verið ákveðið um örlög hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert